Finnska ferðaþjónustufyrirtækið Aurora Hut hefur slegið í gegn á norrænum markaði með húsbáta sína. Bátarnir eru hátæknilega þróaðir, umhverfisvænir, að stórum hluta úr gleri og er hægt að koma þeim fyrir bæði á vatni og á þurru landi.
Húsbátar Aurora Hut voru meðal annars kynntir á Mid-Atlantic ráðstefnunni sem fór fram á vegum Icelandair í Laugardalshöll um síðustu helgi. Eliza Reid forsetafrú og Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, voru meðal þeirra sem virtu húsbátana fyrir sér.
Tomi Sipola, sölustjóri Aurora Hut, var staddur á ráðstefnunni þar sem hann sýndi áhugasömum gestum gistirýmið og svaraði spurningum þeirra.

„Hugmyndin er að fá æðislega upplifun hvar sem er og án þess að skaða umhverfið. Þú getur til dæmis séð norðurljósin á besta stað og þarft ekki að bora neitt eða setja upp neitt rafmagnskerfi. Jafnvel þótt það sé 50 stiga frost úti, þá er hlýtt hérna inni. Þú bara slakar á og nýtur náttúrunnar.“
Húsbátarnir, (fljótandi hótelin) eru framleiddir í verksmiðju AuroraHut Oy í Ylivieska í Finnlandi og eru allir íhlutir keyptir af verktökum sem eru staðsettir eins nálægt verksmiðjunni og hægt er. Fyrirtækið leggur mikla áherslu á umhverfisvernd og fylgir mjög ströngum reglugerðum þegar kemur að efnisflæði og meðhöndlun á úrgangi.

„Það að vera umhverfisvæn er mjög mikilvægt fyrir okkur. Hitakerfið er til dæmis knúið áfram með dísilolíu sem er búin til úr úrgangi. Við viljum passa að allt sem við gerum sé umhverfisvænt og þar að auki endurvinnanlegt,“ segir Tomi.
Húsbátarnir komu fyrst til landsins í fyrrasumar og hægt var að bóka 140 þúsund króna ævintýraferð sem innihélt siglingu um Fjallsárlón og gistingu í húsbátnum á lóninu sjálfu. Hátt verð á slíkri gistingu tengist ef til vill verðmiða bátsins, en einn Aurora Hut kostar í kringum 50 þúsund evrur.
„Þeir segja að ég sé með bestu staðsetninguna sem þeir hafa séð"
Steinþór Arnarson, framkvæmdastjóri Fjallsárlóns ehf., sér um rekstur húsbátanna á Íslandi og segist vongóður fyrir komandi sumar. Hann sé þegar búinn að taka á móti nokkrum bókunum og er öruggur með staðsetninguna. „Talsmenn fyrirtækisins hafa heimsótt einhverjar hundrað staðsetningar þar sem þessir húsbátar eru og segja þeir að ég sé með bestu staðsetninguna sem þeir hafa séð,“ segir Steinþór.
Hann segist leggja mikla áherslu á að staðsetja húsbátana þar sem þeir eru ekki fyrir neinum og valda ekki neinni sjónmengun. „Bátarnir eru alltaf frekar vel faldir og svo þegar ég sigli mína leið meðfram lóninu þá verður maður varla var við þá.“

Tomi og Steinþór viðhalda nánu samstarfi og virðast leggja áherslu á svipuð atriði þegar kemur að ferðaþjónustu. Húsbátarnir eru umhverfisvænir en engu að síður hlaðnir aukabúnaði svo sem þráðlausri nettengingu, eldhúsi og hljómkerfi
„Það er meira að segja hola í miðjunni fyrir fiskveiðar og svo líka æðislegt hljómkerfi þannig að þú getur dorgað við rúmið á meðan þú hlustar á Elvis,“ segir Tomi.