Þróun á nýju lyfi gegn Alz­heimer hefur verið hætt. Alls voru 130 Ís­lendingar byrjaðir að taka lyfin en tekin var á­kvörðun í gær um að hætta við verk­efnið eftir að sér­stök vísinda­nefnd mat það sem svo að auka­verkanir með lyfinu væru of miklar og ó­víst um gagn­semi þess.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá Ís­lenskri erfða­greiningu, en það voru Am­gen og Novartis sem sáu um þróunina.

„Miklar vonir voru bundnar við þessa lyfja­til­raun þar sem Alz­heimer sjúk­dómurinn er flókinn og ein af stærstu á­skorunum sem heil­brigðis­vísindin standa frammi fyrir. Allar til­raunir til að þróa lyf gegn sjúk­dómnum hafa verið árangurs­lausar,“ segir í til­kynningunni.

Jón Snæ­dal öldrunar­læknir á Land­spítalanum fór fyrir lyfja­rann­sókninni í sam­starfi við Þjónustu­mið­stöð rann­sóknar­verk­efna. Sér­stök vísinda­nefnd yfir­fór fyrstu niður­stöður og komst að fyrr­nefndri á­kvörðun í gær.

Sem fyrr segir voru 130 Ís­lendingar byrjaðir að taka lyfin en alls höfðu 500 undir­gengist undir­búnings­rann­sóknir. Átta manns hjá Þjónusustu­mið­stöð rann­sóknar­verk­efna störfuðu við verk­efnið; tveir læknar, tveir sál­fræðingar og fjórir hjúkrunar­fræðingar.

David Reese, yfir­maður rann­sókna og þróunar hjá Am­gen, segir í til­kynningunni að þetta séu mikil von­brigði, bæði fyrir vísindin og milljónir ein­stak­linga sem sjúk­dómurinn hafi á­hrif á. Hann segist þó enn trúa að efna­hvatinn sem lyfið átti að hemja sé mikil­vægur í þessu flókna sam­spili sem leiði til sjúk­dómsins. Fyrir­tækið sé reiðu­búið til að deila vísinda­niður­stöðum sínum með þeim sem leiti or­saka sjúk­dómsins og leggi þannig sitt lóð á vogar­skálarnar.

Þá segir Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, í til­kynningunni að lyfið hemji efna­hvatann líkt og stefnt hafi verið að en að það nægi ekki til að hægja á þróun sjúk­dómsins, auk þess sem því fylgi ó­æski­legar auka­verkanir.

Þjónustu­mið­stöð rann­sóknar­verk­efna mun hafa sam­band við alla þátt­tak­endur og ræða við þá um fram­haldið, að því er segir í til­kynningu frá Ís­lenskri erfða­greiningu.