Hugbúnaðarfyrirtækin Vettvangur og Stokkur hafa í sameiningu þróað forrit í snjallsíma í samstarfi við Lyfju sem einfaldar og eykur öryggi við kaup á lyfjum. Í tilkynningu segir að það sé það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Markmið þess er að auðvelda kaup á lyfjum á sem öruggastan máta.

„Með appinu geta viðskiptavinir séð hvaða lyfseðla þeir eiga í gáttinni. Þeir geta pantað lyf og sótt pöntun í næsta apótek Lyfju í gegnum flýtiafgreiðslu sem tryggir hraðari afhendingu. Hægt er að fá lyfin send heim samdægurs í stærstu sveitarfélögum landsins. Viðskiptavinir geta séð verð á lyfjum og stöðuna í greiðsluþrepakerfi Sjúkratrygginga Íslands auk að fá ráðgjöf í netspjalli,“ segir Elmar Gunnarsson, einn eigenda og stofnandi Vettvangs, sem er sérhæft sig í þróun og rekstri á stafrænum lausnum. Stokkur starfar við hönnun og þróun á forritum í snjallsíma.

Fyrirtækin tvö hafa undanfarin ár unnið saman að þróun stafrænna lausna Domino's pítsakeðjunnar.

Elmar segir að Lyfja sjái sjálf um heimsendinguna og telur það bestu lausnina því þá hafi fyrirtækið sjálft stjórn á eigin þjónustuupplifun til viðskiptavina. „Það er ekki nóg að koma bara flottustu lausnirnar því þarf að fylgja þessu eftir alla leið heim að dyrum viðskiptavina. Heildarupplifunin skiptir raunar öllu máli,“ segir Elmar.