„Það er búið að leggja rosalega vinnu í þetta. Líf mitt snýst um þetta og ég hef verið vakin og sofin yfir þessu fyrirtæki síðastliðin þrettán ár,“ segir Gerður Huld Arinbjarnardóttir, eigandi kynlífstækjaverslunarinnar Blush.

Gerður hefur vakið verðskuldaða athygli í íslensku viðskiptalífi undanfarin ár. Ekki síst fyrir óhefðbundnar aðferðir í markaðssetningu.

Hún segir Blush samt ekki hafa sprottið upp úr einskærum áhuga hennar á kynlífstækjum. Öðru nær.

„Grunnurinn að fyrirtækinu er miklu frekar að ég sá að þarna var rakið tækifæri. Áttaði mig á að það var risastórt gat á þessum markaði og ákvað að gera eitthvað í því,“ segir Gerður.

Þegar hún keypti sitt fyrsta kynlífstæki fannst henni eins og hún væri að gera eitthvað ólöglegt. Þetta hafi allt verið svo mikið tabú.

„Svo fór ég að lesa mér til og komst að því að allar spár bentu til þess að markaður fyrir vörur sem tengjast kynlífi ætti eftir að margfaldast að stærð á næstu árum í Evrópu.

Þá varð eiginlega ekki aftur snúið. Mér fannst tækifærið of gott til að láta það fram hjá mér fara. Svo langaði mig líka til að breyta þessari neikvæðu ásýnd kynlífstækja og viðhorfi fólks til kynlífs um leið.“

Ég vissi til dæmis ekkert hvað virðisaukaskattur var. Komst ekki að því fyrr en mörgum mánuðum eftir að ég stofnaði fyrirtækið.

En þótt Gerður hafi vitað að hugmyndin væri góð var hún ekkert endilega viss um að hún væri rétta manneskjan til að hrinda henni í framkvæmd.

Hennar stærsta áskorun í upphafi hafi verið að öðlast nægilega mikla trú á sjálfri sér.

„Á þessum tíma var ég rétt skriðin yfir tvítugt og að koma úr fæðingarorlofi. Eina menntunin sem ég hafði upp á vasann var grunnskólapróf.

Ég vissi til dæmis ekkert hvað virðisaukaskattur var. Komst ekki að því fyrr en mörgum mánuðum eftir að ég stofnaði fyrirtækið,“ segir Gerður og hlær.

„Þannig að ég var aðallega að glíma við eigin fordóma. Svona í fyrstu. Gagnvart sjálfri mér. Ég hef alveg þurft að vinna í sjálfri mér hvað það varðar.“

Að sögn Gerðar reyndist þessi skortur á sjálfstrausti, svona eftir á að hyggja, stærsta hindrunin.

Viðbrögðin í viðskiptalífinu eða álit annarra hafi haft minna að segja. Allar efasemdaraddirnar hafi frekar styrkt hana í þeirri trú að hún væri með eitthvað stórt í höndunum.

„Ég var oft spurð að því hvernig ég endaði í kynlífstækjabransanum. Eins og þetta væri einhvers konar endastöð sem enginn óskar sér. Það finnst mér enn í dag mjög fyndið," segir Gerður.

Ég þurfti alveg að sanna mig. Sýna fólki að þessari 21 árs gömlu konu frá Íslandi væri alvara.

„Svo er þetta auðvitað mjög karllægur bransi. Þegar ég var að fara á mínar fyrstu vörusýningar erlendis var ég eina konan í Evrópu sem rak eigin kynlífstækjaverslun. Ég þurfti alveg að sanna mig. Sýna fólki að þessari 21 árs gömlu konu frá Íslandi væri alvara,“ segir Gerður.

Það hafi henni tekist með mikilli vinnu og þrautseigju.

„Í raun er það lykillinn að velgengni Blush og öllu þessu ævintýri. Okkur hefur gengið fáránlega vel en það er fyrst og fremst vegna þess að við erum búin að vinna fyrir því," segir Gerður að lokum.