Þrotabú WOW air hefur innheimt kröfur fyrir 1,1 milljarð króna. Þetta kom fram á kröfuhafafundi WOW air sem haldinn var í dag.

Við gjaldþrot WOW air námu lausar innistæður á óveðsettum bankareikningi félagsins um þremur milljónum króna en eftir innheimtu krafna nemur upphæðin 1,1 milljarði króna.

Skömmu fyrir gjaldþrot WOW seldi félagið losunarheimildir kolefnis fyrir um 450 milljónir króna. Sú fjárhæð var greidd þrotabúinu.

Þrotabúinu tókst að innheimta eftistöðvar söluverðr afgreiðslutíma á Gatwick-flugvelli í Bretlandi en við gjaldþrotið voru ógreiddar 200 milljónir króna.

WOW air átti fjármuni erlendis sem afhentir voru til trygginga á ýmsum viðskiptum félagsins eða sem fyrirframgreiðsla á innkaupum, meðal annars við flugvelli og olíufélög. Þrotabúið hefur fengið greiddar 111 milljónir en unnið er að frekari heimtum.

Þá hefur þrotabúið selt stóran hluta lausafjár sem var í eigu félagsins eins og varahluta- og verkfæralager, bíla, skrifstofuhúsgögn og fleira.

Þrotabúið á enn í viðræðum við nokkra aðila um sölu á vörumerkinu WOW, lénum félagsins, bókunarvél og ýmsu lausafé er tengdist rekstrinum.