Nýsköpunarfyrirtækið Bulby vinnur að því að þróa sköpunargleði-hugbúnað sem byggir á rannsökuðum aðferðum sem leiða notandann í gegnum sköpunargleðiæfingar, sem gera honum kleift að sjá nýjar og nytsamlegar lausnir.

Birna Dröfn Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Bulby, segir að hugmyndin hafi kviknað út frá doktorsnámi hennar.

„Þar var ég að rannsaka sköpunargleði og því meira sem ég rannsakaði og skoðaði, því meira komst ég að því hversu frábær eiginleiki þetta er,“ segir Birna.

„Þegar ég lenti í bílslysi lærði ég ótrúlega mikið um hvernig heilinn virkar og hvernig við getum endurforritað hann og slíkt. Sá lærdómur hefur nýst mér við þróun hugbúnaðarins.“

Birna segir að rannsóknir bendi til þess að við séum öll skapandi og getum orðið meira skapandi.

„Sköpunargleði er ein mikilvægasta auðlind nútímans og fyrirtæki verða að nýta hana og efla. Þess vegna er sorglegt að sjá að rannsóknir benda til þess að sköpunargleði fólks hafi minnkað frá 1950. Ástæða þess er talin vera sú að mikill hraði sé í samfélaginu. Adobe og IBM hafa rannsakað fyrirtæki úti um allan heim og komist að því að sköpunargleði er eftirsóttasti eiginleikinn á vinnumarkaði og sá sem erfiðast er að finna.“

Birna bætir við að sá hópur sem þau vilji byrja á að þjónusta sé fólk sem býr til efni fyrir samfélagsmiðla.

„Sá hópur þarf að búa til efni virkilega ört svo það er mikilvægt að þau séu skapandi. Við getum hjálpað þeim að ýta undir skapandi hugsun til að sjá nýja vinkla til að miðla efni á sínum samfélagsmiðlum. Við getum bæði hjálpað fyrirtækjum og einstaklingum að fá nýjar og skemmtilegar hugmyndir að efni fyrir samfélagsmiðla sína.“

Birna tekur dæmi sem sýnir hvernig einstaklingurinn er leiddur í gegnum sköpunarferlið.

„Segjum til að mynda að ég ætli að búa til efni um sköpunargleði. Þá er ég leidd í gegnum æfingar eins og til dæmis að tengja tilviljanakennd orð við viðfangsefni mitt, sem gæti verið að tengja sköpunargleði og laufblað saman. Laufblað minnir mig á haustið og haustið minnir á skólann. Út frá þessu fæ ég þá hugmynd að skrifa um hvað nemendur geta gert í skólanum til þess að efla sköpunargleðina, sem er svo mikilvægt þar sem hún er helsta auðlind framtíðarinnar.“

Á bak við Bulby ásamt Birnu er Hannes Agnarsson Johnson, sem sér um vöruþróun og markaðsmál.Birna segir að markmið Bulby sé að efla sköpunargleði í heiminum og þau stefni mjög langt með þessa hugmynd.

„Við erum að leita að fjármagni núna og höfum fengið virkilega góð viðbrögð frá öllum. Við erum í rauninni bara alveg hissa og áttum ekki von á þessu. Fjárfestar hafa haft samband við okkur að fyrra bragði og fyrirtæki lýst yfir vilja til að kaupa hugbúnaðinn fyrir alla starfsmenn. Við erum virkilega þakklát fyrir hversu vel hefur verið tekið í þetta.“

Birna bendir á að ávinningurinn af því að efla sköpunargleðina sé margvíslegur fyrir einstaklinga, fyrirtæki og samfélagið í heild.

„Rannsakendur hafa skoðað fyrirtæki sem leggja áherslu á sköpunargleðina og séð að þau vaxa margfalt hraðar en þau sem gera það ekki. Rannsóknir sýna einnig að það að efla sköpun getur aukið hamingju og dregið úr kvíða og þunglyndi fólks. Það getur ýtt undir starfsánægju, minnkað líkur á kulnun og verið mikill ofurkraftur. Mín ósk er sú að sem flestir átti sig á að við erum öll skapandi og getum orðið meira skapandi og gert lífið bara svo miklu skemmtilegra.“