Kerfið hjá markaðstorginu Noona hrundi dag vegna álags. Hjá Noona er hægt að bóka tíma hjá helstu þjónustufyrirtækjum landsins, t.d. í klippingu, snyrtingu og nudd.
Kjartan Þórisson, stofnandi og vörustjóra hjá Noona segir í samtali við Fréttablaðið að kerfið hafi hrunið um hádegisbilið í dag í kjölfar frétta um að hárgreiðslufólk og aðrir einyrkjar gætu opnað stofur sínar á ný í næstu viku.
„Samkvæmt þeim gögnum sem ég hef aðgang að voru um þrjú þúsund manns að reyna að bóka tíma samtímis þegar kerfið hrundi, snemma í kjölfarið af fréttunum, um það bil 12:10 í dag. Það tók okkur lengri tíma að fá kerfin upp aftur heldur en við hefðum viljað, eða um klukkustund. Síðan þá hafa tvö þúsund manns bókað tíma í gegnum Noona appið og vefinn Noona.is."

Eigendur Noona reka einnig tímabókunarkerfið Tímatal, sem þjónustufyrirtæki nota til að halda utan um tímabókanir sínar. Kjartan segir að þar inni hafa fjögur þúsund tímar verið bókaðir í dag og rúmlega fimmtán hundruð tímar hafi verið færðir, sem voru þá líklega aðilar sem áttu bókaðan tíma sem féll niður á tímum samkomubannsins. Tímatal lá ekki niðri í dag.
„Það er þó mikið eftir af deginum og flestar bókanir koma inn að kvöldi til í Noona appinu og á Noona vefnum. Á þessum tímapunkti finnst mér mjög líklegt að bókanir verði samtals a.m.k tíu þúsund, sem væri um það bil þrefalt meira en venjulegt var á tímum samkomubannsins," segir Kjartan.
Flestar voru bókanirnar fyrir næstu viku og vikuna 14 -20. desember næstkomandi, Íslendingar eru því greinilega að huga að jólunum.