Aurbjörg hefur ráðið þrjá nýja starfsmenn í vöruþróunarteymi sitt til að styðja við frekari vöxt fyrirtækisins.
Karlotta Guðlaugsdóttir var ráðin sem viðmóts- og upplifunarhönnuður. Karlotta er með diplómagráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík og stundaði jafnframt nám í almennri hönnun við Tækniskólann. Áður en Karlotta gekk til liðs við Aurbjörgu starfaði hún hjá Júní sem stafrænn hönnuður og heldur hún einnig úti Instagram-reikningnum „bíbí og baka“.
Auk Karlottu voru tveir bakendaforritarar ráðnir til starfa, þeir Trausti Kouichi Ásgeirsson og Þröstur Ingason. Trausti er með B.S. gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og starfaði áður sem forritari hjá Sabre Airline Solutions. Hann er úr Breiðholti en á ættir að rekja til Japans.
Þröstur er með B.S gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann starfaði síðast við hugbúnaðarþróun hjá Seðlabanka Íslands og Reiknistofu bankanna.
„Karlotta, Trausti og Þröstur eru frábær viðbót við ört vaxandi teymi Aurbjargar. Fyrirtækið er í miklum sóknarhug og mun sérþekking þeirra hjálpa okkur að þróa enn hraðar nýjar og framsæknar lausnir,“ segir Jóhannes Eiríksson, framkvæmdastjóri Aurbjargar.