Þau Jón Tómas Rúnarsson, Kristín Gunnarsdóttir og Sandra Björk Bjarkadóttir hafa verið ráðin til Samkaupa. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

Jón Tómas Rúnarsson gegnir stöðu sérfræðings í gagnadrifnum rekstri hjá Samkaupum. Hann er rekstrarverkfræðingur að mennt og er útskrifaður með B.Sc. frá Háskólanum í Reykjavík. Hann starfaði áður hjá Verði, tryggingafélagi og þar áður hjá Isavia.

Kristín Gunnarsdóttir tekur við stöðu mannauðsfulltrúa Krambúðanna og Kjörbúðanna ásamt því að hafa umsjón með og þróa áfram velferðarþjónustu Samkaupa. Kristín er með M.Sc. gráðu í mannauðs-og vinnusálfræði frá Háskólanum í Reykjavík og B.Sc. í sálfræði frá Háskóla Íslands. Kristín starfaði áður hjá Reykjavíkurborg, þar sem hún stýrði Afleysingastofu og þróun hennar.

Sandra Björk Bjarkadóttir hefur hafið störf sem mannauðsfulltrúi Nettó og Iceland, ásamt því að hafa umsjón með jafnréttisstefnu Samkaupa. Sandra er með BA gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands og leggur nú lokahönd á meistaranám í mannauðsstjórnun frá sama skóla. Sandra hefur unnið mannauðssviði hjá Samkaupum í eitt ár og tekur nú við nýju hlutverki. Áður en hún kom til Samkaupa starfaði hún hjá Iceland Travel, síðast sem sölustjóri.

„Að styrkja mannauðsteymið enn frekar með þeim Söndru og Kristínu, gefur okkur öflugt tækifæri til að sækja fram og styrkja samkeppnisforskot Samkaupa á vettvangi mannauðsmála og fyrirtækjamenningar. Með aukinni tækni og flæði upplýsinga, þar sem við byggjum ákvarðanir á gögnum, er frábært að fá Jón Tómas inn í nýtt teymi gagnadrifins reksturs og viðskiptaþróunar, með þekkingu sem nýtist Samkaupum vel,” segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs - og samskiptasviðs Samkaupa.

Hjá Samkaupum starfa yfir 1.300 manns í tæplega 700 stöðugildum. Samkaup reka yfir 60 verslanir um land allt og eru helstu verslanamerki þeirra Nettó, Krambúðin, Kjörbúðin og Iceland.