Sam Bank­man-Fri­ed, for­stjóri og stofnandi raf­mynta­kaup­hallarinnar FTX, er einn ríkasti maður heims þrátt fyrir að vera að­eins þrí­tugur að aldri. Sam­kvæmt For­bes-tíma­ritinu eru eignir hans metnar á 24 milljarða Banda­ríkja­dala, rúm­lega 3.100 milljarða króna.

Þó að Sam syndi í seðlum, eða því sem næst, hefur hann lítinn á­huga á að flagga auð­æfum sínum eins og sumir aðrir vell­auðugir ein­staklingar. Hann ekur um á Toyotu Cor­ollu, hefur engan á­huga á að eignast snekkju og hefur sett sér það mark­mið að þiggja að­eins sem nemur tæpum 13 milljónum króna í laun á ári. Restina vill hann gefa frá sér og þá einna helst til góðra mál­efna.

Sam var í ítar­legu við­tali við Bloom­berg á dögunum þar sem ýmis­legt á­huga­vert kom fram. FTX er ein stærsta raf­mynta­kaup­höll heims og á í harðri sam­keppni við aðrar kaup­hallir eins og Coin­ba­se og Binance. Undan­farin misseri hafa þó verið gæfu­rík fyrir FTX sem er með höfuð­stöðvar sínar á Bahama­eyjum.

Í við­talinu við Bloom­berg kemur fram að Sam lifi að mörgu leyti eins og dæmi­gerður mennta­skóla­nemi. Hann keyrir um á Toyotu Cor­ollu og þegar hann er ekki í vinnunni er hann á heimili sínu sem hann deilir með tíu vinum sínum.

Hann segist ekki vera gefinn fyrir það að kaupa sér fal­lega hluti þó hann hafi það gott fjár­hags­lega. „Maður verður fljótt uppi­skroppa með hug­myndir um hvernig peningar geta veitt manni hamingju. Ég hef engan á­huga á að kaupa mér snekkju,“ segir hann.

Hann segist hafa sett sér ákveðin markmið fyrir löngu og hugmyndafræði hans sé einföld: Hann ætlar að greiða sér nógu góð laun til að eiga gott líf, um það bil 1 prósent af því sem hann þénar, eða 100 þúsund dollara að lágmarki, á ári. Að öðru leyti kveðst hann ákveðinn í að gefa restina frá sér, hvern einasta dollara og hverja einustu rafmynt eftir því í hvaða formi eignirnar verða.

Við­talið við Sam má lesa í heild sinni á vef Bloom­berg.