Þrír stjórnendur Kviku seldu hlutabréf í bankanum fyrir 276 milljónir króna eftir að hafa nýtt sér áskriftarréttindi. Gengið í viðskiptunum var 24 en stjórnendur gátu nýtt sér áskriftarréttindi á genginu 7,2.

Ármann Þorvaldsson, aðstoðarforstjóri Kviku, seldi hlutabréf fyrir 120 milljónir. Miðað við gengið á áskriftarréttindunum var hagnaðurinn 84 milljónir króna.

Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdastjóri Kviku eignastýringar, seldi hlutabréf í félaginu fyrir 96 milljónir og nam hagnaðurinn 67 milljónum króna miðað við að hann hafi nýtt sér áskriftarréttindi á fyrrnefndu gengi.

Baldur Stefánsson, framkvæmdstjóri fyrirtækjaráðgjafar Kviku, seldi hlutabréf í fjármálafyrirtækinu fyrir 60 milljónir og nam hagnaðurinn 42 milljónum króna.

Í lok annars ársfjórðungs hafði Kvika veitt áskriftarréttindi að tæpum 296 milljónum hluta eða 6,2 prósentum af hlutafé félagsins þá. Innlausnartímabil meirihluta þeirra hófst í gær. Við það myndast áhyggjur af því að stór hluti réttindanna verði innleystur og bréfin seld í kjölfarið. „Þó slík framboðsaukning geti haft áhrif til skamms tíma þá teljum við lækkun á hlutabréfaverði Kviku vegna þeirra eingöngu tækifæri fyrir fjárfesta,“ segir í verðmati Landsbankans.

Landsbankinn verðmat gengi Kviku 28,9 krónur á hlut í greiningu sem birtist í gær eða 21 prósenti hærra en markaðsvirðið var við opnun markaðar í gær.