Hlutfall erlendra eigna í samtryggingardeildum þriggja stærstu lífeyrissjóða landsins er komið yfir 40 prósent. Þetta má lesa úr nýjum tölum fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands um flokkun á eignum lífeyrissjóðanna sem ná til loka september.
Hlutfall erlendra eigna í samtryggingardeildum lífeyrissjóða er komið yfir 38 prósent og hefur hækkað um meira en 4 prósentustig frá áramótum. Aukning í heildareignum lífeyrissjóða frá áramótum nemur um 463 milljörðum króna og þar af nemur aukning erlendra eigna 341 milljarði.
Ef tíu stærstu lífeyrissjóðirnir eru teknir sérstaklega fyrir voru þrír stærstu sjóðirnir – Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE) og Gildi lífeyrissjóður – með hæstu hlutföll erlendra eigna.
Hlutfall erlendra eigna hjá LSR, sem er stærsti lífeyrissjóður landsins með heildareignir upp á tæplega 1.100 milljarða króna, nam rúmlega 43 prósentum í lok september. Hlutfall Lífeyrissjóðs verslunarmanna, næststærsta sjóðsins, nam tæplega 43 prósentum og hjá Gildi lífeyrissjóði var það komið upp í 40 prósent.
Lægst var hlutfallið hjá Brú – Lífeyrissjóði sveitarfélaga, en það nam rúmlega 26 prósentum í lok september. Næst kemur Frjálsi lífeyrissjóðurinn með 29 prósent og síðan Stapi með 35 prósent.
Lögum samkvæmt þurfa lífeyrissjóðir að takmarka gjaldmiðlaáhættu sína með því að tryggja að minnst 50 prósent af heildareignum þeirra séu í sama gjaldmiðli og skuldbindingarnar. Hlutfall erlendra eigna má því ekki fara yfir þetta hámark.
Tölur fjármálaeftirlitsins sýna að eignir lífeyrissjóða í ríkistryggðum skuldabréfum í íslenskum krónum hafa lítið breyst frá ársbyrjun. Ríkisbréfin námu tæplega 994 milljörðum króna í lok september samanborið við 990 milljarða í ársbyrjun en sem hlutfall af heildareignum hafa bréfin lækkað úr 22,6 prósentum niður í 20,6 prósent.
Hlutfall innlendra hlutabréfa af innlendum eignum nam 16,8 prósentum samanborið við 18,2 prósent í ársbyrjun. Ef innlend hlutabréf eru skoðuð í samhengi við heildareignir lækkaði hlutfallið úr 17,1 prósenti niður í 15,4 prósent.
Þá hækkuðu innlán í íslenskum krónum úr 65 milljörðum króna upp í 101 milljarð króna á tímabilinu. Eignir í sértryggðum skuldabréfum jukust úr 196 milljörðum í 223 milljarða, en sem hlutfall af heildareignum var breytingin óveruleg.
Eins og greint var frá í Markaðinum er nú unnið að því innan stjórnkerfisins að skoða mögulegar breytingar á uppgjörskröfunni, sem er einnig kölluð ávöxtunarviðmið, samkvæmt heimildum Markaðarins, Uppgjörskrafan er sögð of há miðað við núverandi vaxtaumhverfi. sem kemur sér meðal annars illa fyrir ríkissjóð sem áformar frekari útgáfu ríkisskuldabréfa á næstu misserum til að fjármagna gífurlegan fjárlagahalla.