Sjálfkjörið verður í nýja fimm manna stjórn sameinaðs félags Kviku banka, TM og Lykils á aðalfundi næstkomandi miðvikudag.

Þeir Sigurður Hannesson, Guðmundur Þórðarson og Guðjón Reynisson, sem hafa setið í stjórn Kviku banka, munu halda áfram í stjórn félagsins en auk þess taka sæti Helga Kristín Auðunsdóttir og Kristín Friðgeirsdóttir en þær hafa verið verið í stjórn tryggingafélagsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kviku til Kauphallarinnar þar sem greint er frá þeim einstaklingum sem gáfu kost á sér til setu stjórnar félagsins.

Samkvæmt heimildum Markaðarins mun Sigurður Hannesson, sem er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og hefur verið stjórnarformaður Kviku undanfarið eitt ár, verða formaður stjórnar sameinaðs félags.

Markaðurinn hafði áður upplýst um að fjárfestarnir Örvar Kjærnested, sem hefur verið stjórnarformaður TM samfellt frá 2014, og Einar Örn Ólafsson, sem hefur setið í stjórn TM frá 2017 og er nú nýr stjórnarformaður Play, myndu ekki sækjast eftir sæti í stjórninni.

Örvar og Einar Örn eru á meðal hóps einkafjárfesta sem fara með ráðandi hlut í Stoðum, einu umsvifamesta fjárfestingafélagi landsins, sem var stærsti hluthafinn í bæði Kviku og TM. Eignarhlutur Stoða í sameinuðu félagi er í dag rúmlega níu prósent.

Varastjórn Kviku verður skipuð þeim Ingu Björg Hjaltadóttur, sem hefur setið í stjórn bankans frá árinu 2013, og Sigurgeir Guðlaugssyni, fjárfesti.