Um þriðjungur landsmanna hefur miklar áhyggjur af alvarlegu fjárhagslegu tjóni af völdum útbreiðslu kórónaveirunnar. Mikill meirihluti landsmanna eða 79 prósent hefur miklar áhyggjur af áhrifum kórónuveirufaraldursins á efnahag þjóðarinnar. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar MMR. Morgunblaðið greinir frá.

Stuðningsmenn Viðreisnar (78 prósent) voru líklegri en fylgismenn annarra flokka til að hafa miklar áhyggjur af útbreiðslu kórónuveirunnar á íslenskan efnahag. Stuðningsmenn VG (37 prósent) og Samfylkingar (31 prósent) voru líklegri en aðrir til að hafa miklar áhyggjur af að smitast sjálfir, segir í fréttinni.

Um fimmtungur hefur áhyggjur af því að verða fyrir alvarlegu heilsutjóni af hennar völdum. Um 35 prósent landsmanna hafa mjög litlar eða engar áhyggjur af því að verða fyrir heilsutjóni hennar vegna.

Könnunin var gerð dagana 18. til 20. mars og heildarfjöldi svarenda, 18 ára og eldri, var 1.081.