Þriðjungur allra fasteignaviðskipta á fyrstu þremur mánuðum ársins voru vegna fyrstu kaupa, en vaxtalækkanir Seðlabankans undanfarna 12 mánuði hafa aukið svigrúm margra til fasteignakaupa. Þetta kemur fram í umfjöllun hagdeildar Landsbankans um fasteignamarkaðinn.

„Svo virðist sem í langflestum tilfellum séu það einstaklingar sem hafa verið að selja öðrum einstaklingum, fyrirtæki virðast umsvifalítil á þessum markaði og hlutfall fyrstu kaupenda hefur aldrei verið hærra. 33 prósent viðskipta á fyrsta fjórðungi ársins á höfuðborgarsvæðinu voru vegna fyrstu kaupa og hefur hlutfallið aukist nær stöðugt frá upphafi gagnasöfnunar. Þetta er vísbending um að vel hafi tekist að auka framboð og mæta þörfum þeirra sem vilja komast inn á eigendamarkað, þrátt fyrir að oft á tíðum heyrist umræða um annað,“ segir í greiningu Landsbankans.

Íbúðasala á síðustu misserum hefur aukist verulega, sölutími styst og sífellt algengara er að íbúðir seljist yfir uppsettu verði.

Greinir hagdeild bankans frá því að í mars hafi fjölgun á undirritun kaupsamninga verið um 57 prósent frá því í marsmánuði í fyrra. Íbúðaverð hafi hækkaði um 1,6 prósent milli mánaða, sem er mesta hækkun milli mánaða frá árinu 2017.