Eignir íslenskra lífeyrissjóða námu ríflega tvöfaldri landsframleiðslu í septemberlok og hafa þær aukist um ríflega 12 prósent frá áramótum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri greiningu Íslandsbanka.

Þar segir jafnframt að hagfelld þróun á innlendum og erlendum hlutabréfamörkuðum ásamt hreinu innflæði iðgjalda skýri þá þróun að stórum hluta. Útlit er fyrir að 2021 verði þriðja árið í röð þar sem raunávöxtun eigna sjóðanna verður talsvert umfram 3,5 prósent uppgjörsviðmið þeirra.

Þá kemur fram að eignir sjóðanna nemi rúmlega tvöfaldri landsframleiðslu.

„Eignir íslenskra lífeyrissjóða námu alls 6.445 mö.kr. í lok september síðastliðins samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Það jafngildir ríflega tvöfaldri landsframleiðslu ársins 2021 miðað við spá okkar frá september síðastliðnum. Frá áramótum hafa eignirnar aukist um 713 milljarða króna og munar þar langmestu um innlenda og erlenda hlutabréfaeign.“

Þá voru erlendu eignir sjóðanna alls 2.258 milljarðar sem samsvarar 35 prósent af heildareignum þeirra.

„Hlutfall erlendra eigna af heildareignum hefur hækkað jafnt og þétt undanfarin ár. Til samanburðar var það tæplega 22 prósent í árslok 2016. Segja má að talsverðum hluta viðskiptaafgangs undanfarinna ára hafi verið varið til þess að auka við erlendar eignir lífeyrissjóðanna enda endurspeglast jákvæð hrein erlend staða þjóðarbúsins upp á rúman þriðjung af VLF (miðað við júnílok 2021) að talsverðum hluta í þessum eignum.“