Þrettán manns var sagt upp störfum hjá Sýn í dag. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er Hjörvar Hafliðason þeirra á meðal, sem og Kristín Ýr Gunnarsdóttir og Sighvatur Jónsson, fréttamenn á Stöð 2.

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Vodafone, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið. Hann segir að verið sé að sameina svið og að um sé að ræða lið í skipulagsbreytingum fyrirtækisins. „Við erum að sameina svið, og engin stórfrétt að það sé gert í 550 manna fyrirtæki. Þetta eru engar fjöldauppsagnir,“ segir Heiðar, sem vildi annars lítið tjá sig um uppsagnirnar að svo stöddu.

Hjörvar Hafliðason hefur starfað hjá Stöð 2 og á FM957 um árabil. Hann var meðal annars umsjónarmaður Brennslunnar og hefur aðstoðað við lýsingar á íslenska boltanum, auk þess sem hann er einn færasti sérfræðingur landsins um fótbolta á skjánum.

Boðað hefur verið til starfsmannafundar hjá Sýn nú klukkan 14.