Lífeyrissjóður Verzlunarmanna hefur ákveðið að þrengja lánaskilyrði til þess að draga úr útlánavexti. Telur sjóðurinn að áframhaldandi vöxtur í geti leitt til ójafnvægis í áhættudreifingu sjóðsins.

Þetta kemur fram í frétt á vef lífeyrissjóðsins en þar segir að eftirspurn eftir sjóðfélagalánum hafi aukist mikið frá því lánareglur voru rýmkaðar árið 2015. Þá voru sjóðfélagalán um 6 prósent af heildareignum sjóðsins, en eru nú um 13 prósent sem er með því hæsta í íslenska lífeyrissjóðakerfinu. Sjóðfélagalán voru um síðustu mánaðamót um 107 milljarðar króna og í umsóknarferli hjá sjóðnum eru um 25 milljarðar króna að meðtöldum umsóknum um endurfjármögnun.

„Mánuðina júlí, ágúst og september hefur umfang lánsumsókna þrefaldast miðað við sama tíma í fyrra. Öll fyrirliggjandi gögn benda til áframhaldandi vaxtar. Þessi vöxtur leiðir að óbreyttu til ójafnvægis í áhættudreifingu sjóðsins og því óhjákvæmilegt að stjórn bregðist við því. Eftir ítarlegar athuganir stjórnar með sérfræðingum sjóðsins, þ.á m. í útlánum, eignastýringu og áhættustýringu, er niðurstaðan eftirfarandi,“ segir í fréttinni.

Stjórn sjóðsins hefur því ákveðið breytingar á lánareglum sjóðfélagalána. Breytingarnar fela eftirfarandi í sér að lánsréttur miðist við virka sjóðsfélaga eða þá sem hafa greitt iðgjald til sjóðsins í 6 mánuði af síðustu 12 mánuðum. Einnig eiga lánsrétt þeir sem greitt hafa til sjóðsins í samtals 36 mánuði. Hámarksfjárhæð láns verður 40 miljónir króna og verðtryggð lán með breytilegum vöxtum verða ekki í boði fyrir nýja lánþega. Þá lækka fastir vextir verðtryggðra lána lækka úr 3,40 prósentum í 3,20 prósent en vextir af óverðtryggðum lánum verða óbreyttir 5,14 prósentum.