Sjö af ellefu Icelandairþotum sem skráðar hafa verið eign félagsins Airco ehf., þrátt fyrir að því félagi hafi verið slitið 19. desember í fyrra, hafa nú verið fluttar yfir á nafn Icelandair í loftfaraskrá Samgöngustofu.

Haft var eftir Ásdísi Ýr Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair, í Fréttablaðinu 28. maí síðastliðinn að Icelandair hefði staðið skil á öllum gögnum til Samgöngustofu. „Það sem út af stendur eru ákveðnar staðfestingar erlendis frá sem von er á á næstu dögum,“ bætti upplýsingafulltrúinn þó við.

Samkvæmt veðbókarvottorðum áðurnefndra ellefu flugvéla hvíla á þeim tvö lán upp á samtals jafnvirði rúmlega þrettán milljarða króna. Fimm þotur eru veðsettar fyrir 35,1 milljón dollara og á sex þotum hvílir 65,2 milljóna dollara lán. Bæði eru lánin tekin á síðasta ári. Lægra lánið er frá 20. júní og hærra lánið var gefið út daginn fyrir gamlársdag í fyrra. Lánveitandinn í báðum tilvikum er CIT Bank sem er með höfuðstöðvar í Pasadena í Kaliforníu.