Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir fyrirtækið ekki hafa reynt að koma í veg fyrir sýningu fréttaskýringarþáttarins Kveiks sem sýndur verður í kvöld en harmar framgöngu RÚV. „Þeir reyndu að nálgast okkur á fölskum forsendum,“ segir hann. „Við teljum jafnframt að RÚV sé ekki að sinna hlutleysisskyldu sinni.“

Samherji gaf út yfirlýsingu í gær um fyrrverandi starfsmann í Namibíu sem myndi koma fram í þættinum og bera alvarlegar ásakanir á stjórnendur Samherja. Jafnframt var greint frá því að fyrirtækið hefði sent fyrrverandi rannsóknarlögreglumann til Namibíu árið 2016, að umræddum starfsmanni var sagt upp störfum og málið væri í rannsókn.

Þorsteinn segist hafa hugmyndir um hvað verði fjallað um en tjáir sig ekki um það að svo stöddu. Ekki heldur um möguleg viðbrögð.