Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er kominn á listann yfir tuttugu stærstu hluthafa fjarskipta- og fjölmiðlunarfyrirtækisins Sýnar.

Á yfirliti sem Kauphöllin birti í dag kemur fram að Þorsteinn Már er 19. stærsti hluthafi Sýnar í gegnum Eignarhaldsfélagið Stein sem er í meirihlutaeigu Þorsteins Más. Félag Þorsteins á nú 2 milljónir hluta, sem samsvara 0,67 prósenta eignarhlut, en miðað við núverandi gengi bréfa Sýnar nemur eignarhluturinn 47,8 milljónum króna.

Eignarhaldsfélagið Steinn hélt utan um eignarhlut Þorsteins Más í Samherja hf, sem var að mestu leyti framseldur til barna hans í júní á þessu ári. Eigið fé Samherjasamstæðunnar, sem samanstendur af Sam­herja hf. og Sam­herja Hold­ing, átti eigið fé upp á 111 millj­arða króna í lok árs 2018.

Stærsti hluthafinn í Sýn er Gildi lífeyrissjóður sem fer með 13,6 prósenta hlut. Næst á eftir koma Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 10,6 prósenta hlut og Birta lífeyrissjóður með 9,8 prósenta hlut.

Birta jók við hlut sinn um tæplega tvö prósentustig í júlí og komst þannig upp fyrir Ursus, félag Heiðars Guðjónssonar, forstjóra Sýnar, á hluthafalistanum.