„Ég er ekki fjárfestir persónulega,“ segir Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga. Hann er oft sagður halda um alla þræði á ýmsum sviðum þjóðlífsins, þar á meðal í fjármálakerfinu og í Framsóknarflokknum, að því er fram kemur í ViðskiptaMogganum.

„KS hefur hinsvegar verið þátttakandi í olíufélögum, tryggingarekstri og slíku, en ekki mikið meiru. Ég var reyndar í bankaráði Búnaðarbankans á meðan hann var ríkisbanki. Seinni árin höfum við í KS lagt meiri áherslu á grunnreksturinn.

Eftir bankahrun fjárfestum við í endurreisn Olís ásamt Samherja, sem er nú það eina stóra sem við höfum gert í þessum efnum síðustu 5-6 ár. Sá hlutur var seldur inn í Haga. Við fengum 4,57 prósenta hlut í Högum sem hluta af greiðslu, en samkvæmt úrskurði Samkeppnisstofnunar þá megum við ekki eiga þau bréf til framtíðar. Við þurfum að selja innan 30 mánaða,“ segir hann í fyrsta stóru viðtalinu sem hann veitir Morgunblaðinu í nær tvö áratugi.

Þórólfur Gíslason.

Blaðamaður ViðskiptaMoggans spyr hvort hann stjórni Framsóknarflokknum bakvið tjöldin.

En það að ég stjórni Framsóknarflokknum er einhver þjóðsaga sem fór á flug.

„Nei, það er langt í frá. En ég hef verið flokksbundinn framsóknarmaður og skammast mín ekkert fyrir það. Framsóknarflokkurinn var alltaf flokkur grunnatvinnuveganna, sérstaklega landbúnaðar, og var landsbyggðarflokkur.

Mér finnst mikið atriði að halda þeim sjónarmiðum á lofti með skynsömum hætti. En það að ég stjórni Framsóknarflokknum er einhver þjóðsaga sem fór á flug.

Ég hef auðvitað mínar skoðanir, og tel að það sé mjög hollt fyrir stjórnmálaflokka að hafa tengsl inn í atvinnulífið. Ég held að það sé voðalega hættulegt ef þeir missa öll tengsl inn í atvinnulífið, þá verða þeir svo aftengdir. Það sem er mikilvægast fyrir íslenska þjóð núna er að nýta auðlindirnar með skynsamlegum hætti.“

Ekki eins og einræðisherra

Þórólfur segir að þótt margir haldi að hann stjórni öllu eins og einræðisherra, þá sé félagið lýðræðislegra en tíðkast í flestum fyrirtækjum á landinu. Litið sé á fyrirtækið sem héraðslegt félag, sem sé hluti af ímynd svæðisins. Þetta kemur Haldnir séu mánaðarlegir stjórnarfundir, og þar við borðið sitji 12 manns, sjö aðalstjórnarmenn, þrír varastjórnarmenn og tveir starfsmenn. Á aðalfund mæta svo að jafnaði um 70 manns, en fundirnir standi frá 10 á morgnana og fram eftir degi.

„Þetta fyrirkomulag með mánaðarlega stjórnarfundi hefur alla tíð veitt í senn nauðsynlegt aðhald og hvatt til dáða. Ekki síst hefur þetta stöðuga samráð verið gefandi fyrir mig sem kaupfélagsstjóra,“ segir hann við ViðskiptaMoggann.

Auðvitað hef ég séð ýmislegt neikvætt í fjölmiðlum í gegnum tíðina og stundum tekið það nærri mér.

Hann er spurður hvort umræðan um hans persónu hafi haft áhrif á hann.

„Ég hef aldrei verið mjög upptekinn af því hver umræðan er um mína persónu. Auðvitað hef ég séð ýmislegt neikvætt í fjölmiðlum í gegnum tíðina og stundum tekið það nærri mér. Það er hins vegar ekki auðvelt að bera hönd fyrir höfuð sér þegar maður verður fyrir svona dylgjum og jafnvel árásum, og ég hef einfaldlega kosið að einbeita mér að daglegum störfum fyrir kaupfélagið frekar en að elta ólar við margt af því sem sagt hefur verið bæði um mig og kaupfélagið. Væntanlega finn ég aldrei út hvort það sé rétt stefna eða röng en ég geri ekki ráð fyrir að þessi afstaða mín muni breytast í framtíðinni.

Besta svarið í þessum efnum sem ég hef fundið í seinni tíð er þegar Harry S. Truman Bandaríkjaforseti kom að endurreisn Evrópu eftir seinni heimsstyrjöldina. Hann sagði um sjálfan sig: „Það má koma ótrúlega miklu í verk, ef þér er sama hvar heiðurinn af því lendir.“

Farðu svo niður á höfn í Reykjavík, og þar stendur Marshall á húsi úti á Granda. Þetta er vegna Marshall aðstoðarinnar sem veitt var í Evrópu eftir stríð. Afhverju er þetta ekki Truman húsið? Það er af því að utanríkisráðherrann var George Marshall og það passaði að láta hann tala fyrir málinu á Bandaríkjaþingi. Það er sama hugsunin hér í Kaupfélaginu. Mín persóna skiptir ekki máli, aðalmálið er að það náist árangur.