Arena, sem rekur 1100 fermetra æfingaaðstöðu fyrir rafíþróttir í Turninum í Kópavogi, hefur ráðið til sín þrjá lykilstarfsmenn. August Demirsson kemur frá Inferno Online í Svíþjóð, Þórir Viðarsson frá rafíþróttadeild KR og Donna Cruz frá Nova, en frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

Arena, sem í tilkynningu er lýst er sem þjóðarleikvangi rafíþrótta, býr meðal annars yfir aðstaða fyrir leikjaspilun á bæði PC-tölvur og Playstation 5-leikjatölvu, bæði í opnum rýmum sem og í einkaherbergjum. Mun Arena hýsa reglulegar æfingar í samstarfi við íþróttafélög.

Þar verða jafnframt beinar útsendingar frá rafíþróttamótum erlendis í samstarfi við Sýn.

„Við erum mjög ánægð með ráðningarnar á þessu öfluga fólki og teljum okkur vera með rétta teymið til að opna og reka glæsilegustu rafleikjahöll á norðurlöndunum. Okkur hlakkar til að opna dyrnar í ágústmánuði og bjóða Íslendinga velkomna til okkar.“ Segir Sigurjón Steinsson framkvæmdastjóri Arena.

Þórir Viðarssson hefur verið ráðinn yfirþjálfari hjá Arena og kemur til með að halda utan um allt rafíþróttastarf ásamt því að skipuleggja viðburði því tengdu. Þórir starfaði áður sem yfirþjálfari hjá Rafíþróttadeild KR, stofnaði deildina og sinnti hlutverki formanns. Þórir er 37 ára, giftur og þriggja barna faðir. Þórir hefur yfir 20 ára reynslu af skipulagningu rafíþrótta og er með þjálfararéttindi frá ÍSÍ.

August Demirsson er tækni- og keppnisstjóri Arena. August starfaði áður hjá stærstu rafleikjahöll í heimi Inferno Online í Svíþjóð sem „gaming host“ og kemur því með mikla reynslu af sambærilegum störfum þaðan. August er 25 ára gamall og nýútskrifaður leikjahönnuður frá Uppsala Universitet.

Donna Cruz er markaðsstjóri Arena og hefur yfirumsjón með viðburðahaldi en Donna starfaði áður sem upplýsinga- og þjónustufulltrúi hjá Nova og sem verktaki hjá viðburðafyrirtækinu CP til margra ára. Donna hefur starfað við útsendingar frá rafíþróttum og kemur með reynslu af viðburðastjórnun, samfélagsmiðlum og markaðsmálum almennt.