Verkefni þetta var unnið í samvinnu við Neyðarlínuna, Fasteignamat ríkisins, Vegagerðina og Landmælingar Íslands. Landsambandi sumarhúsaeigenda var falið að leiða þessa vinnu inn í framtíðina.

Tilgangur verkefnisins var og er að auka öryggi í frístundahúsabyggðinni. Algengt var að í neyðartilvikum fóru björgunaraðilar villur vegnar vegna ónákvæmra upplýsinga um slysstað. Öryggisnúmer á sumarhús hafa komið í veg fyrir að mikilvægur tími björgunarliðs fari til spillis í neyðartilvikum.

Hvert sumarhús fær sitt eigið öryggisnúmer og ef vá ber að dyrum er hringt til Neyðarlínunnar 112 og öryggisnúmerið gefið upp. Starfsmenn Neyðarlínunnar taka þá við og leiðbeina björgunaraðilum sem næstir eru að sumarhúsinu. Hnitsetning er svo nákvæm að aðeins er um tveggja metra skekkjumörk að ræða.

Í dag er um 60 prósent frístundahúsa komin með þessi öryggisnúmer. Sambandið telur að þessu verkefni sé hvergi nær lokið og að mikilvægt sé að ljúka þessari vinnu hið fyrsta.

Í byggingareglugerð nr. 112/2012 frá 2020 segi m.a. í grein 9.8.7. gr. þar sem farið er fram á að auðkennisnúmer skuli vera til staðar á frístundahúsum sem gefa má upp til neyðarlínu og skuli vera á útvegg. Öryggisnúmerið sem notað er í þessu verkefni er auðkennisnúmer frístundahúsa.

Landssamband sumarhúsaeigenda hefur átt mjög góða samvinnu við þær stjórnsýslustofnanir sem nefndar eru hér að framan. Þjóðskrá tók við verkefnum Fasteignamat ríkisins og í dag fer Húsnæðis-og mannvirkjastofnun með þann þátt sem áður var í höndum Fasteignamats ríkisins.

Í tilefni 20 ára afmælis þessa verkefnis þykir stjórn Landssambands sumarhúsaeigenda rétt að heiðra Þórhall Ólafsson, framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar, með gullmerki sambandsins fyrir vel unnin störf að öryggimálum fyrir sumarhúsaeigendur sem felast í aðkomu Neyðarlínunnar að þessu verkefni frá fyrstu tíð.

Þann 9 júní síðastliðinn var Þórhalli afhent gullmerkið ásamt viðurkenningarskjali því til staðfestingar.