Fjárfestahópur sem Þórarinn Ævarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi og stofnandi pizzustaðarins Spaðans, fer fyrir er á meðal fjárfesta sem falast nú eftir því að kaupa rekstur Domino´s á Íslandi af Domino´s Pizza Group í Bretlandi. Í samfloti með Þórarni, samkvæmt heimildum Markaðarins, eru viðskiptafélagar hans í Spaðanum þeir Jón Pálmason, annar eigenda IKEA hér á landi, og Guðni Rafn Eiríksson, fjárfestir og eigandi félagsins Skakkaturns, umboðsaðila Apple á Íslandi.

Þá hefur Alfa, sem rekur sjö milljarða framtakssjóð, einnig skilað inn tilboði í pizzakeðjuna en Domino´s rekur samtals 24 staði. Áður hefur komið fram að hópur sem fjárfestirinn Birgir Þór Bieltvedt, sem hefur tvisvar áður komið að kaupum á Domino´s á Íslandi, er í forsvari fyrir hafi gert kauptilboð í reksturinn en ásamt honum standa að tilboðinu meðal annars Birgir Örn Birgisson, núverandi framkvæmdastjóri Domino´s, og Skeljungur.

Þá hafa erlendir aðilar sömuleiðis verið á meðal áhugasamra fjárfesta frá því að söluferlið hófst formlega í október en það er ráðgjafafyrirtækið Deloitte í Bretlandi sem hefur haft umsjón með því.

Stjórn Domino´s í Bretlandi hefur enn ekki tekið ákvörðun um að hefja einkaviðræður, á grundvelli skuldbindandi tilboðs með fyrirvara um áreiðanleikakönnun, við einhverja af þeim fjárfestum sem hafa skilað inn kauptilboði, samkvæmt heimildum Markaðarins. Á næstunni er áformað að fjárfestar eigi kynningarfund með forsvarsmönnum Domino´s í Bandaríkjunum en þeir þurfa að gefa samþykki sitt áður en af sölunni verður til nýrra eigenda.

Væntingar stjórnenda Domino´s í Bretlandi, að sögn þeirra sem þekkja vel til, er að hægt verði að ganga frá sölunni í apríl þegar hluthafafundur breska félagsins fer fram. Domino’s Pizza Group keypti reksturinn á Íslandi í tvennu lagi 2016 og 2017 fyrir samanlagt um 8,4 milljarða. Samkvæmt heimildum Markaðarins gæti kaupverðið fyrir allt hlutafé Domino´s á Íslandi um þessar mundir hins vegar mögulega verið um eða yfir tveir milljarðar króna.

Eftir að Þórarinn lét af störfum hjá IKEA 2019 kom hann á fót pizzastaðnum Spaðanum sem starfrækir nú tvo staði í Kópavogi og Hafnarfirði.
Fréttablaðið/Ernir

Afkoma Domino´s, sem er stærsta pizzukeðja landsins, hefur versnað mjög síðustu misseri samhliða aukinni samkeppni og hækkandi launakostnaði. Á árinu 2019 nam veltan um 5,7 milljörðum en hagnaður dróst saman um nærri helming og var 243 milljónir. Á fyrri helmingi síðasta árs drógust tekjurnar saman um 10 prósent og rekstrarhagnaðurinn (EBIT) var um 85 milljónir.

Birgir Bieltvedt er í dag á meðal eigenda Domino´s í Noregi eftir að hann, ásamt hópi annarra fjárfesta, keypt allt hlutafé félagsins af Domino´s Pizza Group í ársbyrjun 2020. Birgir, sem hefur lengi tengst Domino´s, kom að opnun staðarins á Íslandi árið 1993, og fjórum árum seinna opnaði hann Domino’s í Danmörku og árið 2010 í Þýskalandi. Hann var minnihlutaeigandi í Domino’s á Íslandi og í Danmörku þar til hann keypti aðra hluthafa út árið 2004. Í aðdraganda hrunsins seldi Birgir hlut sinn í Domino’s á Íslandi og Danmörku til Magnúsar Kristinssonar útgerðarmanns. Birgir keypti Domino’s aftur 2011 og seldi pitsustaðina 2016 og 2017 með margra milljarða króna hagnaði.

Þórarinn Ævarsson er heldur ekki ókunnugur rekstri Domino´s en hann kom sömuleiðis að stofnun staðarins hér á landi á sínum tíma og stýrði fyrirtækinu á árunum 2000 til 2005. Eftir að Þórarinn lét af störfum hjá IKEA 2019 kom hann á fót pizzastaðnum Spaðanum sem starfrækir nú tvo staði í Kópavogi og Hafnarfirði.