Hlutabréfaverð Thomas Cook hefur hrunið á síðustu sex mánuðum. Breski ferðaþjónusturisinn glímir við háar skuldir og hitabylgjan í Evrópu hafði veruleg áhrif á bókanir.

Hlutabréfaverð Thomas Cook í kauphöllinni í London stóð í 146 pundum á hvern hlut í maí en síðan þá hefur það fallið skarpt. Það var komið niður í 22,7 pund á þriðjudaginn sem er sögulegt lágmark hjá ferðaskipuleggjandanum. Verðfallið þýddi að markaðsvirði Thomas Cook hafði lækkað úr 2,2 milljörðum punda í maí niður í 348 milljónir punda. Það var því orðið minni en skuldir þess sem nema um 389 milljónum punda, að því er kemur fram í umfjöllun The Guardian.

Samkvæmt afkomuviðvörun sem félagið gaf út í lok nóvember er útlit fyrir að hagnaður ársins verði 30 milljónum punda minni en búist var við. Þetta var önnur afkomuviðvörun félagsins á tveimur mánuðum.

Peter Fankhauser forstjóri sagði að árið hefði valdið vonbrigðum. Hitabylgjan í Evrópu hefði orðið til þess að verulega hefði dregið úr síðbúnum bókunum. Flestir bóka sumarferðir sínar í janúar en einnig er töluvert um síðbúnar bókanir í maí og er framlegðin af þeim meiri. Þurfti fyrirtækið að gefa töluverðan afslátt af pakkaferðum sínum til að koma til móts við minni eftirspurn.

Ráðast þurfi í endurskipulagningu

Markaðsgreinendur óttast að vandi Thomas Cook risti dýpra og að ráðast þurfi í mikla endurskipulagningu. Hún geti falið í sér frekari lokanir á útibúum og aukna fjárfestingu í netverslun en á þeim vettvangi hefur fyrirtækið tapað markaðshlutdeild.

„Við bókum ferðir á netinu en Thomas Cook hefur víðtækt net útibúa á sínum snærum,“ sagði Stuart Gordon greinandi í samtali við The Guardian en hann telur að skera þurfi kostnað fyrirtækisins niður um 100 milljónir punda til að það getu lagað sig að breyttri kauphegðun neytenda. „Ég held að þeir hafi falið sig á bak við hitabylgjuna.“

Stjórnendurnir hafa notað vikuna til að fara á fund fjárfesta sem hafa áhyggjur af stöðunni og áformum um arðgreiðslur var slegið á frest í síðustu viku í því skyni að veikja ekki lausafjárstöðuna. Thomas Cook glímdi við samskonar erfiðleika árið 2012 og þurfti þá að grípa til þess að selja hótel og hluta af flugrekstrinum til að afla fjár.