Breska flugfélagið Thomas Cook er gjaldþrota eftir að samningaumleitanir í nótt, þar sem reynt var að bjarga hinu 178 ára gamla fyrirtæki, skiluðu ekki árangri. Bresk flugmálayfirvöld segja að fyrirtækið hafi hætt öllum viðskiptum umsvifalaust. Þetta þýðir að hundruð þúsunda viðskiptavina eru strandaglópar og þúsundir gætu misst vinnuna. BBC segir frá.

Gjaldþrot fyrirtækisins setur 22 þúsund störf í hættu, þar af níu þúsund í Bretlandi. Áætlað er að gjaldþrotið hafi áhrif á um 600 þúsund viðskiptavini um heim allan, þar af 150 þúsund Breta.

Breska ríkisstjórnin hefur tekið 45 flugvélar á leigu til að flytja ferðalanga heim, en samkvæmt BBC voru 16 þúsund breskir ferðalangar með bókað flug í dag, mánudag. Yfirvöld vonast til að geta komið að minnsta kosti 14 þúsund þeirra heim. Tómu flugvélarnar byrjuðu að fara út í gær til að geta flutt fólk heim í dag.

Thomas Cook fékk tæplega 140 milljarða króna neyðarlán í ágúst, en þegar lánadrottnar fyrirtækisins kröfðust þess að fyrirtækið útvegaði rúmlega 31 milljarð króna í viðbót tókst ekki að halda fyrirtækinu á floti.