Flugfélagið Thomas Cook, stefnir að öllum líkindum í gjaldþrot. Fréttamiðillinn The Guardian greinir frá þessu.

Allar flugferðir flugfélagsins voru teknar úr sölu af bókunarsíðum fyrirtækisins um klukkan tíu í kvöld eftir að samningaviðræður til að halda rekstri félagsins á floti fóru út um þúfur.

Fundað var í um átta tíma í dag frá 09:00 - til 17:00. Samkvæmt frétt The Guardian reyndu forsvarsmenn Thomas Cook meðal annars að fá lánardrottna til að falla frá kröfu um aukið fjármagn upp á 200 milljón pund, eða um 31 milljarð íslenskra króna, og að fá kreditkortafyrirtæki til þess að leysa út um 50 milljón punda reiðufé sem haldið er sem veði. Peter Fankhauser, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, neitaði að svara til um hvort tekist hefði að ná samkomulagi á fundinum.

Breska ríkið og flugyfirvöld hafa þegar gert aðgerðaráætlun fyrir stærstu fólksflutninga á friðartímum í sögu landsins til þess að ferja um 150 þúsund breska ríkisborga heim sem verða líklega strandaglópar um allan heim.

Flugvélar félagsins eru 94 talsins og er talið að megnið af þeim verði kyrrsett í nótt þegar flestar þeirra eru á jörðinni. Um 9 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu.