Verðmæti þjónustuútflutnings í ágúst var áætlað 57,4 milljarðar króna og jókst um 78 prósent frá því í ágúst 2020 á gengi hvors árs. Útflutningstekjur af ferðalögum voru áætlaðar um 32,1 milljarður í ágúst og jukust hratt, eins og undanfarna mánuði, samanborið við sama tíma 2020. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni.

Tekjur af samgöngum og flutningum voru áætlaðar 13,8 milljarðar króna í ágúst og jukust um 129 prósent miðað við ágúst 2020. Verðmæti annara þjónustuliða í útflutningi var áætlað 11,4 milljarðar í ágúst og dróst saman um 17 prósent frá því í ágúst á síðasta ári.

Verðmæti þjónustuinnflutnings í ágúst var áætlað 34,9 milljarðar króna og jókst um 40 prósent frá því í ágúst 2020 á gengi hvors árs. Útgjöld vegna ferðalaga Íslendinga erlendis voru áætluð 10,3 milljarðar í ágúst og jukust um 74 prósent samanborið við ágúst á síðasta ári. Útgjöld vegna samgangna og flutninga voru áætluð 6,7 milljarðar í ágúst og jukust um 38 prósent miðað við ágúst 2020. Verðmæti annara þjónustuliða í innflutningi var áætlað 17,9 milljarðar í ágúst og jókst um 27 prósent frá því í ágúst fyrir ári.

Verðmæti þjónustuútflutnings á tólf mánaða tímabili, frá september 2020 til ágúst 2021, var áætlað 408,3 milljarðar króna og dróst saman um 16 prósent miðað við sama tímabil árið áður á gengi hvors árs. Á sama tímabili var verðmæti þjónustuinnflutnings áætlað 319 milljarðar og dróst saman um 10 prósent miðað við sama tímabil árið áður.