Þjónustujöfnuður batnaði verulega á milli ára. Hagstofa áætlar að hann hafi verið 25,2 ,milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við 2,2 milljarða árið áður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni.

Þjónustuútflutningur var áætlaður 103,3 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi 2021 en þjónustuinnflutningur 78,1 milljarður.

Verðmæti þjónustuútflutnings á öðrum ársfjórðungi jókst um 36 milljarða króna, eða um 54 prósent á milli ára, á gengi hvors árs.

Útflutningstekjur af ferðalögum jukust verulega samanborið við annan ársfjórðung 2020 eða um 19,3 milljarða. Tekjur af samgöngum og flutningum jukust einnig töluvert á milli ára, um 4,5 milljarða eða 23 prósent. Sömu sögu er að segja af útflutningstekjum af annarri viðskiptaþjónustu sem jukust um 44 prósent og útflutningstekjum af tekjum vegna notkunar hugverka sem jukust um 51 prósent miðað við annan ársfjórðung 2020. Vaxandi útflutningstekjur vegna notkunar hugverka skýrast af vaxandi tekjum í lyfjaiðnaði.

Verðmæti þjónustuinnflutnings á öðrum ársfjórðungi jókst um 13 milljarða króna á milli ára, eða um 20 prósent á gengi hvors árs. Útgjöld vegna ferðalaga Íslendinga erlendis jukust um 5,7 milljarða, eða um 59 prósent, samanborið við annan ársfjórðung 2020. Útgjöld vegna samgangna og flutninga jukust einnig nokkuð á milli ára, um 3,3 milljarða eða 2 prósent. Sömu sögu er að segja af þjónustuinnflutningi á annarri viðskiptaþjónustu sem jókst um 2,5 milljarða eða 16 prósent.