Þjóðarsjóður Kúveit, einn stærsti fjárfestingasjóður í ríkiseigu í heiminum, hefur á allra síðustu vikum bæst við hluthafahóp Arion banka. Eignarhlutur sjóðsins í dag, samkvæmt lista yfir alla hluthafa sem Markaðurinn hefur séð, nemur um 2,25 milljónum hluta að nafnvirði en miðað við gengi bréfa bankans er markaðsvirði hans rúmlega 330 milljónir króna. Það jafngildir um 0,15 prósenta hlut í Arion.

Þjóðarsjóði Kúveit (e. Kuwait Investment Authority) var komið á fót árið 1953 og er hann sá elsti sinnar tegundar sem er starfræktur í heiminum. Eignir sjóðsins nema samtals á sjötta hundrað milljarða Bandaríkjadala, sem jafngildir meira en tuttugufaldri landsframleiðslu Íslands.

Fjölmargir erlendir vísitölusjóðir, sem fjárfesta einkum í hlutabréfum félaga á vaxtamörkuðum (e. frontier markets), hafa komið nýir inn í eigendahóp Arion banka eftir að Ísland var formlega tekið inn í vaxtamarkaðsvísitölu MSCI undir lok síðasta mánaðar.

Á meðal þeirra eru sjóðir eins stærsta eignastýringarfyrirtækis heimsins, Franklin Templeton, en þeir eiga orðið samanlagt um 3,4 milljónir hluta að nafnvirði, sem metinn er á um 500 milljónir króna á núverandi markaðsgengi. Aðrir erlendir vísitölusjóðir, eins og Markaðurinn hefur áður upplýst um, sem hafa einkum verið að kaupa í Arion banka á undanförnum dögum og vikum eru sjóðir í stýringu Acadian Asset Management, Northern Trust, Legal & General og FundPartner Solutions.

Áætla má að slíkir erlendir sjóðir hafi fjárfest í Arion fyrir á þriðja milljarð króna frá því í lok maímánaðar. Mikið fjármagn fylgir vísitölum MSCI en nokkur fjöldi af sjóðum fjárfestir í samræmi við vísitöluna eða hefur hana sem viðmið.

Hlutabréfaverð Arion, sem stóð í 148,5 krónum á hlut við lok markaða í gær, hefur hækkað um 56 prósent frá áramótum og nemur markaðsvirði bankans um 247 milljörðum.