Seðlabankinn mun beita sér fyrir því að sjálfstæði stjórnarmanna lífeyrissjóða verði tryggt til frambúðar og eyða öllum grunsemdum um skuggastjórnun. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að bankinn muni beita sér fyrir að lífeyrissjóðir fari eftir tilmælum Fjármálaeftirlitsins frá síðasta ári um endurskoðun á samþykktum sjóðanna sem tryggi góða stjórnarhætti. Þá muni bankinn einnig kalla eftir lagabreytingum þess efnis. Lögin þurfi að kveða skýrar á um sjálfstæði stjórnarmanna og fjármálaeftirlit Seðlabankans þurfi auknar heimildir til að fylgja þeim eftir.

„Að mínu áliti þarf að stíga miklu fastar til jarðar í því að tryggja sjálfstæði sjóðanna. Ég tel að regluumhverfi þeirra sé allt of veikt og að Fjármálaeftirlitið þurfi öflugri heimildir til inngripa,“ segir Ásgeir í samtali við Fréttablaðið.

Stjórn VR sendi frá sér yfirlýsingu 17. júlí síðastliðinn vegna málefna Icelandair. Þar var þeim tilmælum beint til stjórnarmanna sem VR skipar í stjórn lífeyrissjóðsins að sniðganga eða greiða atkvæði gegn þátttöku í væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair. Var það gert vegna óánægju stjórnar VR með það hvernig Icelandair hefði staðið að kjaraviðræðum við Flugfreyjufélag Íslands.

Þá sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í viðtali við Fréttablaðið sama dag að stjórnarmönnum VR í sjóðnum, sem ekki færu eftir tilmælum VR, yrði skipt út. Hann tilkynnti síðar að hann hyggðist leggja það til við stjórn VR að tilmælin yrðu dreg­in til baka.

Ásgeir segir að tilmæli stjórnar VR séu þörf áminning um mikilvægi þess að þétta varnir í kringum sjálfstæða ákvarðanatöku innan lífeyrissjóða.

„Í gegnum tíðina hafa ýmsir utanaðkomandi aðilar reynt að hafa áhrif á fjárfestingar lífeyrissjóðanna. Stjórnmálamenn hafa reynt að nota sjóðina í pólitísk verkefni, atvinnurekendur til þess að styðja einstök fyrirtæki og atvinnugreinar og verkalýðsfélög hafa reynt að nota þá í kjarabaráttu. Þetta er ekki nýtt vandamál og það mun dúkka upp aftur og aftur,“ segir Ásgeir.

„Þess vegna skiptir miklu máli að efla regluverkið þannig að sjálfstæði stjórnarmanna sé tryggt til frambúðar svo að ákvarðanir verði alltaf teknar með hagsmuni sjóðsfélaga í fyrirrúmi.“

Umgjörðin of frjálsleg

Fulltrúaráð VR afturkallaði umboð stjórnarmanna VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, LIVE, sumarið 2019 og setti nýja stjórnarmenn til bráðabirgða. Var það gert vegna ákvörðunar um breytilega vexti verðtryggðra sjóðfélagalána sem stjórn og fulltrúaráð VR voru ósammála um.

„Það er óþolandi ef sjóðsfélagar, sem eru að safna fyrir ævikvöldi sínu, geta ekki gengið að því vísu að fjárfestingarákvarðanir séu teknar í samræmi við hagsmuni þeirra.“

Á þeim tíma beindi Fjármálaeftirlitið þeim tilmælum til Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að endurskoða samþykktir sjóðsins sérstaklega með það í huga hvort og við hvaða aðstæður hægt væri að skipta út stjórnarmönnum. Voru öðrum lífeyrissjóðum í kjölfarið send sömu tilmæli. Aðspurður segist Ásgeir vilja fylgja eftir þessum tilmælum með afdráttarlausum hætti og krefjast svara um það hvernig sjóðirnir ætli að koma í veg fyrir að umboð stjórnarmanna geti verið afturkallað fyrirvaralaust. Umgjörðin er í dag of frjálsleg að mati Ásgeirs.

„Hvernig getur stjórnarmaður verið sjálfstæður þegar hægt er að skipta honum út hvenær sem er – vegna þess að tilnefningaraðilanum líkar ekki við ákvarðanir hans?“ spyr Ásgeir. „Það er óþolandi ef sjóðsfélagar, sem eru að safna fyrir ævikvöldi sínu, geta ekki gengið að því vísu að fjárfestingarákvarðanir séu teknar í samræmi við hagsmuni þeirra.“

Lífeyriskerfið setið eftir

Auk þess mun Seðlabankinn ræða við fjármála- og efnahagsráðuneytið og aðrar viðeigandi stofnanir um að fjármálaeftirlit bankans fái frekari heimildir til inngripa.

„Það má ekki vera auðveldara að skipta út stjórnarmönnum í lífeyrissjóðum en í öðrum einingum tengdum almannahagsmunum.“

„Það mega ekki skapast nein tækifæri til að stofna sjálfstæði stjórnarmanna í hættu. Það má ekki vera auðveldara að skipta út stjórnarmönnum í lífeyrissjóðum en í öðrum einingum tengdum almannahagsmunum. Sérstaklega í ljósi þess hve sjóðirnir eru stórir og umsvifamiklir í íslensku atvinnulífi,“ segir Ásgeir.

„Við höfum slæma reynslu af skuggastjórnun – afskaplega slæma,“ bætir Ásgeir við. „Það var tekið hart á því í stjórnun banka og hlutafélaga í kjölfar hrunsins en lífeyriskerfið hefur setið eftir. Við svo búið má ekki standa.“

Stjórnarmenn í erfiðri stöðu

Hvað varðar hlutafjárútboð Icelandair segir Ásgeir að hægt sé að hafa ýmsar skoðanir á því hvort vænlegt sé að fjárfesta í félaginu. Forystufólk hagsmunasamtaka hafi að sjálfsögðu fullan rétt á því að hafa sína skoðun – sem einstaklingar eða fulltrúar sinna samtaka. Hins vegar sé mjög mikilvægt að lífeyrissjóðirnir, stærstu hluthafarnir, taki upplýsta og sjálfstæða ákvörðun án tillits til utanaðkomandi skoðana. Ljóst er þó að tilmæli stjórnar VR hafa sett stjórnarmenn í LIVE tilnefnda af stéttarfélaginu í erfiða stöðu.

„Ef stjórnarmennirnir hafna því að taka þátt í útboðinu vakna strax grunsemdir um að þeir lúti skugga­stjórn. Þessi tilmæli draga úr trúverðugleika stjórnarmanna LIVE og er mjög óheppileg að því leyti,“ segir Ásgeir. Hann vill þó taka fram að ekkert bendi til annars en að núverandi stjórn LIVE sé fagleg og sjálfstæð í sínum ákvörðunum og ekkert sé út á hana að setja.

Vill sjá meira dreifræði í lífeyriskerfinu

Það að tryggja sjálfstæði stjórna lífeyrissjóða er grundvallaratriði til að bæta lífeyriskerfið að mati Ásgeirs en hann telur þörf á fleiri breytingum.

„Ég hef áhyggjur af samþjöppun ákvarðanatöku á fjármálamarkaði í kjölfar þess að skylduframlög til lífeyrissjóða hafi verið hækkuð og sjóðirnir stækkað. Henni fylgir áhætta og ég hefði viljað sjá meira dreif­ræði í því hvernig lífeyrissparnaði er ráðstafað og til dæmis að sett verði sérstök löggjöf um séreignasparnað,“ segir Ásgeir.

„Einnig má velta fyrir sér hvort fjárfestingar sjóðanna þurfi í auknum mæli að fara í gegnum framtakssjóði þar sem ákvarðanataka er sjálfstæð,“ bætir hann við. Þá eru ýmis önnur mál sem taka þarf til skoðunar, svo sem það hvernig lífeyrissjóðir beita sér sem eigendur hlutafélaga, og náin tengsl sumra lífeyrissjóða við banka. Hins vegar sé grunnurinn að öllu þessu að stjórnarmenn í lífeyrissjóðunum séu sjálfstæðir og hafi ávallt hagsmuni sjóðsfélaga í fyrirrúmi. Það sé það bjarg sem fjárfestingar sjóðanna verði að byggja á. Tilnefningaraðilarnir – vinnumarkaðsfélögin – verði jafnframt að virða þau valdmörk sem góðir stjórnarhættir gera kröfu um.