Sex þúsund kröfur upp á samtals 138 milljarða bárust þrotabúi hins fallna flugfélags WOW air. Fréttablaðið hefur kröfuskrána undir höndum og tók saman stærstu kröfurnar.

Stærsta krafan lögð fram af hálfu leigusalan CIT Areospace International sem leigði fjölda af þotum til íslenska flugfélagsins. Alls nemur krafan 52,8 milljörðum króna. Næst kemur krafa frá breska þotuhreyflasmiðnum Rolls-Royce sem hljóðar upp á samtals 28 milljarða króna í gegnum Rolls-Royce plc. og RRPF Engine Leasing. Leigusalinn ALC, sem átti Airbus-þotuna sem var kyrrsett á Keflavíkurflugvelli af Isavia, lagði fram 9 milljarða kröfu á þrotabúið. Þá lýstu leigusalarnir Sog Aviation Leasing Limited og Tungaaa Aviation Limited þremur milljörðum króna hvor, og Sky High Leasing Company 3,8 milljörðum króna.

Skuldabréfaeigendur sem tóku þátt í útboði WOW air síðasta vetur gera 8,6 milljarða króna kröfu í gegnum félagið Nordic Trustee & Agency. Skúli Mogensen, stofnandi WOW air, sem einnig tók þátt í útboðinu, lýsti kröfum sem nema alls 3,8 milljörðum króna. Þær voru gerðar í nafni Skúla og einnig í gegnum félög í hans eigu.

Þá koma fram tvær stórar kröfur frá bandarískum fjármálafyrirtækjum. Annars vegar U.S. Bank Nation Association sem hljóðar upp á 2,9 milljarða og hins vegar 2 milljarðar frá greiðslumiðluninni Evalon Financial Servives, sem er hluti af U.S. Bank samstæðunni. Alls nemur krafa samstæðunnar því 4,9 milljörðum króna.

Krafa upp á 3,8 milljarða króna kemur fram Ríkisskattstjóra en um er að ræða kröfu vegna stjórnvaldssektar Umhverfisstofnunar vegna vanrækslu WOW air á að standa skil á losunarheimildum fyrir árið 2018. Umverfisstofnun lýsti einnig kröfu upp á 847 milljónir undir nafni stofnunarinnar. Þá nam krafa Isavia á þrotabúið vegna vangreiddra lendingargjalda 2,2 milljörðum króna.