Neytendasamtökin senda að öllu jöfnu ekki umsögn um frumvörp til fjárlaga, en gera undantekningu í þetta sinn til að gera athugasemd við verðtryggingu krónutölugjalda, nefskatta og aukatekna ríkissjóðs.

Í umsögn samtakanna er bent á að í 2. málsgrein, blaðsíðu 116, í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2023 segir: „Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að svokölluð krónutölugjöld, nefskattar og aukatekjur breytist í samræmi við áætlaða vísitölu neysluverðs í árslok … Breytingin nær til áfengis-, tóbaks-, bensín-, olíu-, kolefnis-, bifreiða- og kílómetragjalds ásamt gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra, útvarpsgjaldi og gjöldum sem falla undir lög um aukatekjur ríkissjóðs …“

Í umsögninni segir að áætlað sé að þessi verðtrygging skili ríkissjóði 6,4 milljörðum og leiði til hækkunar verðbólgu um 0,2 prósentustig. Í frumvarpinu sé þó ósagt látið að verðbólgutenging þessi leiðir til hækkunar verðtryggðra lána heimilanna (sem nemi rúmum 1.000 milljörðum) um rúmlega 2 milljarða, eða um þriðjung ávinnings ríkissjóðs. Kostnaður neytenda sé því ekki einvörðungu þær umframálögur sem verðtrygging gjaldanna leggur á herðar þeim, heldur einnig kostnaður vegna hækkunar lána heimilanna sem og annar kostnaður sem hlýst af minnkandi verðgildi krónunnar.

Að því er Neytendasamtökin fá best séð er þetta í fyrsta sinn á síðari tímum sem fjárlagafrumvarpið er verðtryggt, en undanfarin ár hafa þessi gjöld hækkað í takti við verðbólgumarkmið Seðlabankans.

„Vísitölutenging tekna ríkissjóðs er verðbólguhvetjandi aðgerð sem leiðir af sér kuðungsferil sífelldra hækkana og viðheldur vítahring verðbólgu. Ríkissjóður er þar með orðinn forkólfur í vexti og viðhaldi verðbólgunnar, þvert á það sem vera skyldi.

Það skýtur skökku við að stjórnvöld ausi olíu á verðbólgubálið. Neytendasamtökin telja þvert á móti að stjórnvöld ættu að leita allra leiða til að draga úr verðbólgu og lækka vöruverð á nauðsynjavöru svo sem matvælum. Þar liggur beinast við að draga úr og afnema tollvernd með öllu.“

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að miðað við forsendur fjárlagafrumvarpsins, sem miðar við að vísitala neysluverðs hækki um 7,7 prósent á þessu ári, sé um þrefalda hækkun þessara gjalda að ræða samanborið við ef áfram hefði verið miðað við verðbólgumarkmið Seðlabankans, sem er 2,5 prósent.

„Ekki nóg með það,“ segir Breki, „þessi hækkun nú eykur verðbólguna á næsta ári og veldur því enn frekari hækkun þessara gjalda við fjárlagagerð fyrir 2024 og framvegis verði þessi nálgun til frambúðar. Þetta er endalaust, eins og hundur sem eltir skottið á sér.“

Aðspurður hvort Neytendasamtökin hyggist aðhafast meira í þessu máli, segist Breki eiga von á því að samtökunum verði boðið að koma á fund fjárlaganefndar til að ræða þetta. „Fjárlaganefnd hlýtur að hafa áhuga á að heyra sjónarmið neytenda í þessum efnum. Það er með ólíkindum að ríkisstjórnin skuli grípa til aðgerða sem beinlínis valda verðbólgu á sama tíma og Seðlabankinn hefur keyrt hér upp vexti til að reyna að ná tökum á verðbólgunni,“ segir Breki.