Níu hafa sótt um að stýra fjármálastöðugleikasviði Seðlabanka Íslands og þar af eru tveir sem hafa gegnt forstöðu á sviðinu.

Seðlabankinn hefur birt lista yfir umsækjendurnar en eins og Fréttablaðið greindi frá í dag er Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins (SA), á meðal þeirra.

Umsækjendurnir eru:

- Arnar Ingi Einarsson
- Árni Árnason
- Ásdís Kristjánsdóttir
- Bryndís Ásbjarnardóttir
- Eggert Þröstur Þórarinsson
- Guðrún Ögmundsdóttir
- Gunnar Jakobsson
- Haukur C. Benediktsson
- Þorsteinn Þorgeirsson

Eggert Þröstur Þórarinsson og Guðrún Ögmundsdóttir hafa bæði starfað sem forstöðumenn á fjármálastöðugleikasviði bankans. Haukur C. Benediktsson var framkvæmdastjóri Eignasafns Seðlabanka Íslands og Þorsteinn Þorgeirsson hefur starfað sem sérstakur ráðgjafi á skrifstofu seðlabankastjóra.

Að auki sóttu þrír um starfið en þeir hafa dregið umsókn sína til baka. Starf framkvæmdastjóra fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans var auglýst laust til umsóknar í síðasta mánuði en umsóknarfrestur rann út fyrir viku.

Harpa Jónsdóttir gegndi áður starfi framkvæmdastjóra fjármálastöðugleikasviðs en hún lét af störfum fyrr á árinu þegar hún var ráðin framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.