Varnarsigur er hugtak sem gripið er til þegar tekist hefur að koma í veg fyrir óefni. Oftar en ekki er það notað til þess að afsaka eða útskýra frammistöðu í íþróttum, hvar betur hefði mátt ganga. Þegar allt kemur til alls, er varnarsigur þó aldrei sigur. Hvað sem því líður, má þó segja að íslenskur sjávarútvegur hafi unnið varnarsigur á veirutímum. Niðurstaðan, miðað við fyrstu ellefu mánuði ársins, má teljast viðunandi miðað við aðstæður.

Þetta leiðir hugann að samkeppnishæfni. Atvinnugreinar sem ekki eru samkeppnishæfar mun vart verða langra lífdaga auðið. Það segir sig sjálft. Íslenskt sjávarfang er nánast allt flutt út og selt á alþjóðlegum markaði þar sem keppt er við sjávarfang frá öllum heimshornum. Vegna smæðar á þeim markaði, þurfa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki að laga sig að þeim aðstæðum sem einstakir markaðir bjóða. Verð á íslenskum fiski verður ekki sett án tillits til þessa – verðið tekur mið af samkeppninni. Innlendri hækkun á kostnaði verður ekki velt út í verð sjávarafurða. Í kórónu­veiru­faraldrinum hefur þetta orðið að stærra áhyggjuefni en alla jafna.

Beggja vegna Atlantshafs hefur fjármunum Evrópusambandsins, einstakra ríkja þess og Bandaríkjanna verið varið í stuðning við sjávarútveg á þessum svæðum. Ríkisstyrkir á þessum svæðum eru raunar ekki nýtilkomnir, en vegna faraldursins var þar bætt nokkuð í. Sem dæmi má nefna að í Póllandi hafa ESB og pólska ríkið sameiginlega lagt til rúmlega 710 milljónir evra til sjávarútvegs þar í landi á tímabilinu 2014-2020. Hefur það verið gert í gegnum European Maritime Fish­eries Fund. Sambærilega sögu má segja af öðrum ríkjum Evrópusambandsins. Pólland er hér sérstaklega nefnt enda hafa pólskar fiskvinnslur sótt í auknum mæli í íslenskan fisk til vinnslu þar í landi. Við þessa aðila er íslenskur sjávarútvegur að keppa.

Kerfið sem við höfum búið við í sjávarútvegi gerði fyrirtækjunum auðveldara um vik að bregðast við.

Veruleikinn er allt annar hér á landi – enginn fjárhagslegur stuðningur hefur verið veittur og eftir honum hefur ekki verið óskað. Þessi staðreynd hefur ekki farið hátt og sú umræða er til muna fyrirferðarmeiri, að íslenskur sjávarútvegur greiði ekki nægilega mikið í ríkissjóð. Í þeirri umræðu mætti þetta samhengi hluta oftar liggja til grundvallar; hvernig tryggja megi samkeppnishæfni þess burðarstólpa efnahagslegrar hagsældar sem íslenskur sjávarútvegur sannanlega er. Hvernig megi tryggja aukna verðmætasköpun og þannig stærra framlag fyrir þjóðarhag. Svarið liggur að sjálfsögðu í þeim rekstrarskilyrðum sem íslensk stjórnvöld búa atvinnugreininni. Betur þarf að huga að þeim skilyrðum.

En þá aftur að veirunni vondu. Sú þróun sem átt hefur sér stað í íslenskum sjávarútvegi á undanförnum áratugum gerði það að verkum að vel tókst til við að mæta úrlausnarefnum vegna COVID-19. Það er ákveðin saga þar að baki sem kannski blasir ekki við öllum. Kerfið sem við höfum búið við í sjávarútvegi gerði fyrirtækjunum auðveldara um vik að bregðast við. Sveigjanleiki er til staðar í veiðum, virðiskeðjan er samþætt og fyrirtækin hafa mörg hver sterkan efnahagsreikning. Þetta þrennt má telja meginforsendu þess að sjávarútvegur hefur stigið ölduna á erfiðum tíma.

Þegar horft er nokkra áratugi aftur í tímann sést að sjávarútvegur hefur staðið ýmislegt af sér. Netbóluna, bankabóluna og nú COVID-19. Það skjól sem sjávarútvegur getur veitt má vonandi nýta til að byggja hér upp fleiri stöndugar, gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.