„Íslenska ríkið getur vart farið í betri fjárfestingu“ sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, á ráðstefnu sem hann hélt í dag um breytingar sem eiga að tryggja samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Farsældarþjónusta í þágu barns er öll þjónusta sem á þátt í að efla eða tryggja farsæld barns. Undir hana fellur opinber þjónusta á sviði menntamála, heilbrigðismála, löggæslu, félagsþjónustu og barnaverndar.
Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur, kynnti á ráðstefnu félags- og barnamálaráðherra í dag mat sem hann framkævmdi á fjárhagslegum ávinningi breytinga Ásmundars Einars á barnaverndarkerfinu á Íslandi. Slíkt mat hefur ekki verið framkvæmt hér á landi áður og er byggt að fyrirmynd bandarískrar rannsóknar, ACE rannsóknarinnar.
Björn sagði í kynningu sinni að svo það sé meta hvað við eigum þurfum við að skilgreina fyrst hvað við eigum. Hann sagði bestu leiðina til að skoða frávik og fjárhagslegar afleiðingar þeirra.
Hann sagði að það væri erfitt að meta farsæld með beinum hætti en að áföll í barnæsku og afleiðingar þeirra séu um allan heim mest notaða aðferðarfræðin til að meta farsæld barna og til að raunverulega geta áætlað fjárhagsleg áhrif breytinganna sem Ásmundur Einar kynnti í dag þyrfti að svara þremur spurningum. Fyrst hver fjárhagslegur kostnaður vegna frávika frá farsæld í dag sé, í öðri lagi hvaða ávinningi breytingarnar í frumvarpinu muni hafa í formi minnkunar á þessum kostnaði og svo í þriðja lagi hvað það kostar að innleiða breytingarnar á þann hátt að þær skili tilætluðum árangri.
60 prósent barna upplifi áfall
Fram kom í máli Björns að áföll í barnæsku séu í raun algeng og að gert sé ráð fyrir því að um 60 prósent barna upplifi einhvers konar áfall eða áföll frá 0 til 18 ára aldurs.
22 prósent upplifa eitt áfall, 13 prósent tvö áföll, átta prósent upplifa þrjú áföll og svo eru heil 17 prósent sem upplifa fjögur áföll eða fleiri. Algengasta áfallið er skilnaður, eða í um 52 prósent tilfella. Á eftir því er tilfinningaleg misnotkun, svo vímuefnanotkun fjölskyldumeðlims, geðrænn vandi, heimilisofbeldi, svo líkamleg misnotkun, kynferðisleg misnotkun og svo að lokum fangelsisvist fjölskyldumeðlims.
Þá, eins og fjöldi rannsókna sýnir, þá getur aukinn fjöldi áfalla leitt til ýmissar áhættuhegðunar, sjálfsvígstilrauna, örorku, þunglyndis eða kvíða og eftir því sem áföllunum fjölgar þá aukast líkurnar á því að barn stundi einhvers konar áhættuhegðun, svo sem reykingar, misnotkun eiturlyfja eða kynlíf fyrir 16 ára aldur.

Þegar áföllum fjölgar verður málið alvarlegt
Í máli Björns kom einnig fram að miðað við evrópskar rannsóknir megi gera ráð fyrir því að allt að 2.500 börn á Íslandi upplifi í það minnsta eitt áfall á hverju ári og um eitt þúsund upplifi tvö áföll eða fleiri.
„Margir upplifa áföll og þau eru misjafnlega alvarleg. Skilnaður foreldra er til dæmis skilgreindur sem áfall í flestum rannsóknum. Sú upplifun getur verið erfið fyrir suma en haft minni áhrif á aðra. Svo eru margvísleg alvarlegri áföll, til dæmis að lenda í einelti eða vera beittur einhvers konar ofbeldi. Flestir ná að vinna úr sínum áföllum en þau sem lenda í ítrekuðum áföllum eiga erfiðara með að vinna úr þeim. Þú getur að öllum líkindum komist yfir eitt áfall sem barn, þess vegna án aðstoðar, en þegar áföllunum fjölgar er málið orðið alvarlegra,“ segir Björn Brynjúlfur.

Fækki um 50
Hann segir að ein áhugaverðasta talan sem hann rakst á þegar hann framkvæmdi matið var að á hverju ári megi gera ráð fyrir að 350 börn nái ekki að vinna úr áföllum hér á landi en verði breytingarnar innleiddar þá sé hægt að fækka þeim í 300.
„Við værum þá að grípa 50 af þessum börnum á ári. Í stað þess að 350 einstaklingar eigi erfitt uppdráttar í samfélaginu þá ertu að aðstoða 50 af þeim og hjálpa þeim að byggja upp eðlilegt líf,“ segir Björn Brynjúlfur.
Áhrif slíkra áfalla koma víða fram í útgjöldum hins opinbera í formi aukins álags á heilbrigðiskerfi, menntakerfi, félagslega þjónustu og réttarvörslukerfi. Til viðbótar leiða þau til aukinna tilfærslna í örorkubótum og öðrum félagsbótum auk lægri skatttekna hins opinbera. Á Íslandi megi gera ráð fyrir að viðbótarkostnaður sem falli á hið opinbera nemi um 100 milljörðum á ári.
„Með því að fækka í þessum hópi geta stjórnvöld dregið úr útgjöldum og aukið skatttekjur. Þau sem ekki ná að vinna úr áföllum kosta hið opinbera mikla fjármuni þar sem útgjöld velferðarkerfanna til þeirra eru hærri en þær skatttekjur sem þau skila. Með því að fækka í hópnum um 50 manns á ári þá sparast miklir fjármunir. Þeir einstaklingar skila þá meiru í formi skatttekna en sem nemur kostnaði velferðarkerfisins vegna þeirra,“ segir Björn Brynjúlfur.
Auka seiglu barna
Með þeim breytingum sem Ásmundur Einar kynnir í dag er einblínt á að fækka börnum sem upplifa áföll og að auka seiglu barna almennt.
Björn Brynjúlfur sagði að það myndi taka að minnsta kosti 70 ár að fá fram full áhrif frumvarpanna en segir þau þó fara að borga sig eftir áratug. Þá fari ávinningur fram úr útgjöldum og að hann haldi svo áfram að vaxa.
„Þetta er eins og aðrar fjárfestingar. Fólk ræðst í þær af því að þær búa til verðmæti. Ríkissjóður getur fjármagnað sig á 0,4 prósent vöxtum og fjárfest í verkefni sem við áætlum að skili 11 prósent ávöxtun. Forsendurnar þurfa að vera mjög skakkar til að sú niðurstaða breytist. Ég treysti mér því til að fullyrða að þessar breytingar séu arðbær langtímafjárfesting sem bæti afkomu hins opinbera til framtíðar litið,“ segir Björn Brynjúlfur.
Fréttin er unnin upp úr erindi Björns Brynjúlfs á ráðstefnu félags- og barnamálaráðherra og viðtali við Björn sem tekið var í dag, þann 30.11.2020.