Stafræna auglýsingastofan The Engine, dótturfélag auglýsingastofunnar Pipars\TBWA, hefur verið valin ein af tíu bestu stafrænu markaðsstofum í Evrópu árið 2020 af markaðstímaritinu MarTech Outlook. Þetta er annað árið í röð sem fagritið velur slíkan lista.

„Þetta er mjög mikil viðurkenning fyrir okkur og það alþjóðlega markaðsstarf sem við sinnum fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Hreggviður Magnússon, leiðtogi í stafrænni markaðssetningu hjá The Engine.

Tetra Pak á meðal viðskiptavina

„Meðal verkefna okkar er að stýra viðamikilli stafrænni strategíu fyrir írska fjártæknifyrirtækið Taxback International sem er B2B fyrirtæki og er með lykilmarkaðir í Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi og á Norðurlöndunum. Fyrir þessa vinnu fengum við meðal annars nokkrar tilnefningar til alþjóðlegra verðlauna í stafrænni markaðssetningu í fyrra. Jafnframt framkvæmdum við viðamikla úttekt á stafrænum innviðum Tetra Pak, sem er sænskt fyrirtæki með 24.000 starfsmenn, og settum fyrirtækið á Digital Maturity Ladder. Í Þýskalandi erum við að sjá um stafrænar markaðsherferðir fyrir Demicon og erum við jafnframt að endurhanna ásýnd, vefsíðu og logo fyrirtækisins. Svo er skrifstofa okkar í Noregi með stækkandi flóru viðskiptavina á Noregsmarkaði. Nú í janúar erum við svo að senda inn tilboð til Food Delivery App fyrirtækis, Waitr & Bite Squad, sem staðsett er í 700 borgum í Suðurríkjum Bandaríkjanna um að sjá um Google/Bing/Apple auglýsingar þeirra, þar sem birtingarveltan er gríðarleg,“ segir Hreggviður í tilkynningu.

The Engine fékk fimm tilnefningar til European Search Awards á síðasta ári, fjórar tilnefningar til Nordic Search Awards og tvennar tilnefningar hjá Global Marketing Awards, þar sem stofan hreppti Best Global PPC herferðina fyrir Gray Line á Íslandi.

„Það má segja að árið 2020 hafi einkennst af fjölbreyttum og alþjóðlegum stafrænum verkefnum, þar sem viðskiptavinir okkar voru víðsvegar í heiminum en allir með eitt sameiginlegt, að ná árangri með stafrænni markaðssetningu," segir Hreggviður.