Hjónin Íris Ann og Lucas Keller hafa rekið veitingastaðinn Coocoo´s Nest í níu ár. Á þeim tíma hefur umhverfi veitingastaðarins í gömlu verbúðunum úti á Granda tekið algerum stakkaskiptum. Þau hafa nú ákveðið að söðla um og selja fyrirtækið.

„Þegar við fórum út í þetta og ákváðum að taka þátt uppbyggingunni á Grandanum þá voru ekki einu sinni götuljós á svæðinu. Þetta voru bara gamlar verbúðir í niðurníðslu. Í dag iðar svæðið hins vegar af lífi og það er ótrúlega dýrmætt að hafa fengið að taka þátt í þessu ævintýri hérna,“ segir Íris.

Hún segir þau hjónin bæði listamenn og þau elski að skapa og sjá eitthvað nýtt verða til. „Það verður örugglega smá erfitt fyrir okkur að kveðja eitthvað sem hefur verið svo stór hluti af okkar lífi síðastliðin níu ár, en við finnum líka að við erum tilbúin í næstu áskorun.“

Þetta hefur þróast út í að vera svo mikil samfélagsmiðstöð hérna

Íris segist nýlega vera farin að nefna það upphátt við fastakúnna að staðurinn sé til sölu. „Við erum svona rétt farin að undirbúa okkar dyggustu viðskiptavini. Þetta hefur þróast út í að vera svo mikil samfélagsmiðstöð hérna þannig að við þurfum að undirbúa okkar fólk fyrir það sem er í vændum.“

Einhverjir hafi, að sögn Írisar, þegar lýst yfir áhuga á að taka við keflinu af þeim hjónum og halda áfram að byggja ofan á það sem fyrir er.

Þótt þau hjónin hafi ákveðið að söðla um segir Íris þau alls ekki hætt að elda fyrir fólk. „Okkar framtíðardraumar eru nær náttúrunni þar sem við getum verið með listasetur og viðburði. Tengja saman list og matarmenningu. Við erum með hugmyndir sem okkur langar til að þróa áfram og fikra okkur kannski meira út á land með þær pælingar. En það kemur allt saman í ljós,“ segir Íris Ann.