„Í ljósi þess hvað gjaldeyrisforði Seðlabankans er stór getur Seðlabankinn haft mikil áhrif með væntingastjórnun án þess endilega að þurfa að nota mikið af forðanum, segir Agnar Tómas Möller, sjóðsstjóri hjá Kviku banka í samtali við Markaðinn.

Seðlabankinn upplýsti eftir lokun markaða síðasta fimmtudag að hann myndi frá og með þessari viku vera reiðubúinn til að selja allt að 240 milljónir evra, jafnvirði 40 milljarða króna, í reglulegum viðskiptum við viðskiptavaka stóru bankanna á gjaldeyrismarkaði, til ársloka 2020. Mun Seðlabankinn selja þeim þrjár milljónir evra hvern viðskiptadag.

Tilkynning Seðlabankans kom eftir að ljóst var að samkomulag Seðlabankans við lífeyrissjóði, um að þeir gerðu hlé á gjaldeyriskaupum sínum, yrði ekki framlengt þegar það rennur út næsta fimmtudag. Markmiðið er að auka dýpt markaðarins, sem hefur að undanförnu einkennst af lítilli veltu, og bæta verðmyndun.

Gengisveiking upp á 3,6 prósent frá því í byrjun ágúst þurrkaðist nærri út eftir að tilkynnt var um reglubundna gjaldeyrissölu. Krónan styrktist um 2,5 prósent eftir tilkynninguna en degi síðar, á föstudaginn í síðustu viku, seldi Seðlabanki Íslandi gjaldeyri fyrir 2,9 milljarða króna til þess að styðja frekar við gengið.

„Þegar krónan virkar veik og flæðið á markaðnum er einhliða, er hætta á að fyrirtæki og fjárfestar hagi ákvörðunum sínum í samræmi.“

Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, segir að útspil Seðlabankans hafi ekki komið á óvart, í framhaldi af fréttum um að samkomulag við lífeyrissjóðina verði ekki framlengt. Það sé í takti við þær yfirlýsingar sem hafa komið frá Seðlabankanum um gengi og gjaldeyrisinngrip.

„Fyrst um sinn studdi þetta við gengi krónunnar og ég sé ekki betur en að það sé einmitt eitt af því sem Seðlabankinn vill, enda telur hann að krónan sé orðin of veik miðað við undirliggjandi efnahagsstærðir og framleiðslugetu,“ segir Erna Björg.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði í viðtali við Fréttablaðið í síðustu viku að gengi krónunnar væri orðið mjög lágt miðað við eðlilegt framleiðslustig í efnahagslífinu. Hann sagðist telja að ferðaþjónustan myndi koma mjög fljótt til baka um leið og slakað yrði á sóttvarnaaðgerðum, rétt eins og gerðist í júlí og ágúst. „Þetta er því tímabundið ástand,“ útskýrði seðlabankastjóri.

Ekki allir lífeyrissjóðir töldu sig bundna af samkomulaginu við Seðlabankann auk þess sem skuldbindingar þeirra við erlenda framtakssjóði hafa kallað á gjaldeyriskaup. Þá hefur umtalsverð sala erlendra fjárfesta á íslenskum ríkisskuldabréfum sett þrýsting á gengi krónunnar.

Agnar Tómas bendir á að hreyfingar á gengi krónunnar byggist oft á sálfræði.

„Þegar krónan virkar veik og flæðið á markaðnum er einhliða, er hætta á að fyrirtæki og fjárfestar hagi ákvörðunum sínum í samræmi,“ segir Agnar. Hann telur líklegt að framvirkir samningar innflytjenda og frestun útflutningsfyrirtækja á að skipta gjaldeyri í krónur, hafi spilað inn í gengisveikingu sumarsins.

Sýnir mikinn trúverðugleika

Skrúfuáhrif á gjaldeyrismarkaði geta byrjað að grafa undan verðbólguvæntingum en verðbólgan stendur nú í 3,2 prósentum, sem er nokkuð yfir 2,5 prósenta markmiði Seðlabankans.

Agnar segir mikilvægt að Seðlabankinn beiti gjaldeyrisforðanum til að bregðast við. Gengisstyrking síðustu daga sýni að bankinn þurfi ekki að nota mikið af forðanum til þess að hafa áhrif með væntingastjórnun.

„Ég held það sé jákvætt að bankinn hafi það mikinn trúverðugleika að tilkynning um gjaldeyriskaupaáætlun, sem er ekkert sérstaklega stór í sniðum, hafi svo mikil áhrif,“ segir Agnar og bætir við að langtíma verðbólguvæntingar hafi lækkað mikið í kjölfar tilkynningar Seðlabankans.

„Maður veltir auðvitað fyrir sér hvort tilkynningin hafi jafnvel haft meiri áhrif en Seðlabankinn átti von á.“

Tíu ára verðbólguálag hafi lækkað úr 2,85 prósentum í 2,55 prósent og framtíðarverðbólguvæntingar, það er, væntingar um verðbólgu í 5 ár eftir 5 ár, sem Seðlabankar horfa almennt mikið til, hafi fallið úr 2,55 prósentum í 2,15 prósent sem er undir verðbólgumarkmiði.

Erna Björg tekur í sama streng og segir að Seðlabankinn hljóti að vera nokkuð ánægður með áhrifin sem þessi tilkynning hefur haft hingað til.

„Maður veltir auðvitað fyrir sér hvort tilkynningin hafi jafnvel haft meiri áhrif en Seðlabankinn átti von á. Svona miklar sveiflur milli daga ríma að minnsta kosti ekki við yfirlýst markmið um að auka stöðugleika á markaðinum. Gengisstyrkingin, sem á einum degi þurrkaði nánast út gengisveikingu ágústmánaðar, kemur sér hins vegar vel fyrir Seðlabankann, sem er á verðbólgumarkmiði.“

Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka.

Ekki verið að breyta leiknum

Í viðbrögðum gjaldeyrismiðlunar Landsbankans, sem voru send til viðskiptavina síðasta fimmtudag og Markaðurinn hefur undir höndum, segir að inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði hafi að undanförnu verið svo regluleg að ekki hafi verið hægt að kalla þau tilfallandi.

„Það er ekki hægt að hengja þetta lengur á ákveðna útlendinga, það hreinlega vantar bara gjaldeyri í vöru- og þjónustuviðskipti. Seðlabankinn er ekki með þessu að breyta leiknum, hann er í raun bara að útvega svipað magn og hann hefur gert síðustu 2 mánuði. Það magn hefur dugað til að hægja á veikingu,“ segir í skeyti gjaldeyris­miðlunar Landsbankans.

„Þetta getur róað einhverja og getur jafnvel búið til styrkingu á rólegum útflæðistímum. Það sem er miklu áhugaverðara er að fylgjast með Seðlabanka Íslands í óreglulegum aðgerðum. Þurfa dagsveiflurnar að verða meiri til þess að hann mæti með óregluleg inngrip?“

Þá bendir gjaldeyrismiðlunin á að hagkerfið hafi verið fast í „krónísku útflæði“ og þar af leiðandi veikingu íslensku krónunnar. Ekki sé ástæða til að reikna með að það breytist.

„Í stað þess að geta treyst á jafna og þétta veikingu, hafa líkur á tilfallandi styrkingardögum aukist.“

Mikil þörf á viðskiptaafgangi

Innlán lífeyrissjóða hjá innlendum fjármálafyrirtækjum hafa aukist um 50 milljarða króna frá byrjun árs. Upphæðin nam 153 milljörðum króna í janúar en var komin í 203 milljarða króna í júlí samkvæmt nýjustu tölum Seðlabanka Íslands. Uppsöfnun innlána má meðal annars rekja til uppgreiðslna á sjóðsfélagalánum og samkomulagsins við Seðlabanka Íslands.

Agnar Tómas Möller, sjóðsstjóri hjá Kviku banka.

Eignir sjóðanna nema hátt í 190 prósentum af þjóðarframleiðslu og hlutfall erlendra eigna er um 33 prósent. Agnar Tómas bendir á að flestir sjóðir ætli að hækka hlutfallið í um 40 prósent og auk þess renni um 300 milljarðar í sjóðina á ári í formi iðgjalda, afborgana og fjármagnstekna.

„Ég tel líklegt að lífeyrissjóðir muni vilja fjárfesta stórum hluta af þeim fjármunum erlendis. Líklega munu því á bilinu 100 til 150 milljarðar á ári um næstu ár leita frá lífeyriskerfinu í erlendan gjaldeyri. Það er um um 3 til 5 prósent af landsframleiðslu og því ljóst að þjóðarbúið mun þurfa að viðhalda talsverðum viðskiptaafgangi bara til að geta staðið undir því útflæði.“