Tilætlunarsemi kvenna í atvinnulífinu virðist vera endalaus. Kosningaréttur, fæðingarorlof, jöfn laun og jöfn staða. Hvar enda kröfurnar? Ætli það verði ekki þegar jafnrétti hefur verið náð. Jafnréttismál eru samfélagsmál, mál okkar allra og fjölbreytileikinn mikilvægur í sjálfbærum heimi og þar á Ísland að vera leiðandi og vera fyrirmynd annarra þjóða er kemur að jafnrétti – Og tölurnar tala, samantekt á stöðu stjórnenda eftir kyni eru aðgengilegar og ekki eftir neinu að bíða.

Ógagnsætt, óformlegt og gjarnan útilokandi ferli?

Þegar lög voru sett um kynjakvóta var undirrituð alfarið á móti slíkum lögum, engin kona vill starf sem hún á ekki tilkall til. En 10 árum seinna hefur hlutfallið af konum í stjórnum fyrirtækja aðeins aukist um 2% og hlutfall kvenkyns forstjóra/framkvæmdastjóra hækkað um 3%. Nú tölum við í staðreyndum og gögnin tala sínu máli og afar mikilvægt að hafa rannsóknir fræðimanna að leiðarljósi. Í þessu sambandi má nefna stjórnarkonur í skráðum félögum sem upplifðu gjarnan að ráðningarferlið væri ógagnsætt, óformlegt og gjarnan útilokandi fyrir konur. Kom þetta fram í rannsókn Ástu Dísar Óladóttur, Gylfa Dalmann og Þóru H. Christiansen. Fleiri og stærri rannsóknir sýna einnig að meiri hagnað má finna hjá þeim sem hafa fjölbreyttari stjórnarmynstur og það er því ekki áhætturekstur fyrirtækja heldur ábati að ráða inn hæfar konur, eigendum og starfsfólki til hagsbóta.

Jafnrétti er ákvörðun.

Ég sit í starfshópi Jafnvægisvogar sem er hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA. Áhersla verkefnisins er að jafna hlutfall kynja í efsta stjórnenda lagi. Markmiðið er að stuðla að aukinni vitundarvakningu um gildi jafnréttis og fjölbreytileika fyrir afkomu fyrirtækja auk þess að hvetja atvinnulífið að gera betur. Jafnrétti er ákvörðun er yfirskrift ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar sem fer fram fimmtudaginn 14. október nk. klukkan 14.00. Þar verða erindi einstaklinga sem tóku ákvörðun og hafa sett jafnréttið á dagskrá. Dagskráin er aðgengileg öllum og verður streymt á vef RÚV ásamt viðurkenningarathöfn.

Þegar ég hef sagt frá Jafnvægisvoginni eru flest viðbrögð góð, oftast er spurt: „Gengur ekki vel og baráttan að renna undir lok?“ Því hef ég svarað: „Nei, alls ekki“ en góðu fréttirnar eru að það er okkar, stjórnenda í íslensku atvinnulífi, að taka ákvörðun um hvernig starfsumhverfi við ætla að búa til. Tökum ákvörðun!

Katrín Kristjana Hjartardóttir, sérfræðingur hjá Origo, stjórnarkona FKA í starfshópi Jafnvægisvogar.