Úrskurðarnefnd um upplýsingamál felldi í síðustu viku úr gildi ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að synja beiðni blaðamanns á Viðskiptablaðinu um aðgang að öllum fundargerðum Lindarhvols, eignaumsýslufélags sem var falið að halda utan um tugmilljarða eignir sem voru afhentar ríkinu vegna stöðugleikaframlaga slitabúa gömlu bankanna, á árunum 2016 til 2018.

Ráðuneytið bar því meðal annars við að beiðni blaðamannsins væri afar umfangsmikil og meðferð hennar, sem fælist í því að fara yfir allar fundargerðirnar og afmá tilteknar upplýsingar úr þeim, myndi taka það langan tíma að það kæmi óhjákvæmilega niður á öðrum lögbundnum störfum þess. Þannig væri fyrirsjáanlegt að afgreiðsla málsins útheimti í það minnsta 25 klukkustunda vinnu.

Var beiðni blaðamannsins þannig synjað í heild sinni með vísan til 1. töluliðar 4. mgr. 15. gr upplýsingalaga þar sem segir að upplýsingabeiðni kunni að vera hafnað ef meðferð hennar taki svo mikinn tíma eða krefst svo mikillar vinnu að ekki telst af þeim sökum fært að verða við henni.

Úrskurðarnefndin tók þau svör ráðuneytisins ekki gild. Í úrskurði nefndarinnar er þannig tekið fram að leggja verði til grundvallar að áðurnefndu ákvæði 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga verði einungis beitt þegar sýnt þykir að vinnsla beiðni um upplýsingar myndi í raun leiða til umtalsverðrar skerðingar á möguleikum stjórnvalds til að sinna öðrum hlutverkum sínum.

„Þegar horft er til þeirra upplýsinga sem fram hafa komið af hálfu ráðuneytisins í samskiptum þess við úrskurðarnefnd um upplýsingamál getur nefndin ekki fallist á að yfirferð á fundargerðum Lindarhvols ehf. árin 2016-2018 taki svo mikinn tíma að undantekningarákvæðið eigi við,“ segir í úrskurði nefndarinnar.

Var beiðni blaðamannsins þannig vísað til nýrrar afgreiðslu hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Lindarhvol lauk sem kunnugt er þeim verkefnum sem því voru falin snemma árs 2018, í kjölfar sölu á öllu hlutafé ríkisins í Lyfju, og var félaginu í kjölfarið slitið. Auk eignarhluta í Lyfju fór félagið með hluti ríkisins í félögum á borð við Klakka, Sjóvá, Reitum, Eimskip og Símanum auk ýmissa annarra óskráðra félaga.

Í drögum að skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi Lindarhvols er stjórn félagsins sögð ekki hafa í öllum tilfellum náð því markmiði að hámarka söluandvirði eigna sem voru í umsýslu þess á árunum 2016 til 2018, að því er fram kom í frétt Markaðarins í síðasta mánuði. Það kunni að hafa valdið því að ríkið hafi fengið samtals allt að um milljarði króna minna í sinn hlut en ella.