„Það er erfitt að ætla að vera í ein­hverju hnútu­kasti. Það er bara verið að búa til úlfalda úr mý­flugu og það er bara stundum þannig í þessum málum,“ segir Rósa Guð­bjarts­dóttir, bæjar­stjóri Hafnar­fjarðar­bæjar, í sam­tali við Frétta­blaðið. Greint var frá því fyrr í dag að Hafnar­fjarðar­bær hafi komist að sam­komu­lagi við Kviku banka um að fjár­mála­fyrir­tækinu yrði falið að annast sölu­ferli á eignar­hlut bæjarins í HS Veitum áður en sam­þykkt var í bæjar­ráði að ráðast í sölu á hlutnum.

Frétta­blaðið birti í dag tölvu­póst­sam­skipti starfs­manna bæjarins og Kviku banka sem hófust um mánuði áður en til­laga um sölu hlutarins var lögð fyrir bæjar­ráð. Nokkrir tölvu­póstanna báru þá titilinn „Ráðningar­samningur“ og má þar sjá hvar starfs­maður Kviku sendir Hafnar­fjarðar­bæ til­búið ráðningar­bréf.

„Varðandi sam­þykkt í bæjar­ráði þá er ég búinn að vera að hugsa það og tel að þið ættuð bara að reyna að klára það sem fyrst,“ segir starfsmaður Kviku meðal annars í póstinum.
Skjáskot

Rósa gerði þá at­huga­semd við það að Frétta­blaðið hefði túlkað það út frá birtum tölvu­pósti að sam­komu­lag við Kviku hafi þá legið fyrir: „Fram kemur í tölvu­póstinum að Kvika hafi sent Hafnar­firði drög að ráðningar­bréfi og staðlaða skil­mála þann 14. apríl. Þetta eru drög að sam­komu­lagi af hálfu Kviku banka sem Hafnar­fjarðar­bær hafði þá hvorki komið með at­huga­semdir við né tekið af­stöðu til,“ segir Rósa.

Frétta­blaðið bendir henni þá á annan póst sem er dag­settur 20. apríl, tveimur dögum áður en sam­þykkt er að ráðast í söluna í bæjar­ráði, þar sem starfs­maður Kviku segir: „Með­fylgjandi er upp­færður ráð­gjafa­samningur í takt við það sem við ræddum í símanum áðan á­samt stöðluðu skil­málunum“.

„Já, allt í lagi. Það er bara erfitt að vera í ein­hverju svona hnútu­kasti,“ sagði hún þá og benti á að þegar bærinn seldi eignar­hlut sinn í HS-orku árið 2009 hafi samningar ekki verið lagðir fyrir eða kynntir í bæjar­ráði.

Seinni pósturinn dag­settur 20. apríl, tveimur dögum fyrir fund bæjar­ráðs þar sem sam­þykkt var að ráðast í sölu á hlutnum. Þar segist starfs­maður Kviku hafa rætt breytingar á samningnum í símann við starfs­mann bæjarins.
Skjáskot

Minnihlutinn ósáttur við svörin

Minni­hluti Hafnar­fjarðar­bæjar hefur gagn­rýnt fyrir­hugaða sölu á hlutnum í HS Veitum og furðað sig á því að samningur hafi verið gerður við Kviku banka um að sjá um söluna að­eins tveimur dögum eftir að sam­þykkt var í bæjar­ráði að hefja ferlið. Bæjar­full­trúi Sam­fylkingarinnar Adda María Jóhanns­dóttir lagði þá fram fyrir­spurn til bæjar­ráðs þann 20. maí síðast­liðinn þar sem hún spurði meðal annars hve­nær á­kvörðun hafi verið tekin um að fela Kviku banka að selja hlutinn. Í svarinu sem barst rúmum mánuði síðar, þann 3. júní segir: „Gengið var til samninga við Kviku banka í kjöl­far þess að sam­þykkt var í bæjar­ráði að hefja at­hugun á sölunni“.

Tölvu­póstarnir sýna þó að við­ræðurnar við Kviku höfðu hafist mun fyrr og að skoðana­skipti milli bæjarins og Kviku um at­riði í samningnum hafi verið hafin fyrir bæjar­ráðs­fundinn 22. apríl. Adda hefur gert al­var­legar at­huga­semdir við að ekki hafi verið greint frá þessu í svarinu við fyrir­spurn sinni. Að­spurð hvers vegna ekki hafi verið minnst á þessi sam­skipti í svarinu segir Rósa:

„Því þau voru bara ó­form­leg. Það eiga sér stað ó­form­leg sam­töl við fólk og fyrir­tæki og fé­lög allan daginn í þessu kerfi. Það var bara verið að vinna í haginn ef af þessu yrði.“ Hún tekur þá fram að öllum hafi verið ljóst að ekkert hafi legið í hendi fyrr en sam­þykkt bæjar­ráðs lægi fyrir.

„Það skiptir bara máli hve­nær samningurinn var undir­ritaður,“ segir hún. „Hvað menn gerðu í að­dragandanum og hvernig sam­skipti starfs­manna beggja aðila í að­dragandanum voru er al­gjört auka­at­riði í þessu máli. Aðal­at­riðið verður að sjá hvað kemur út úr sölu­ferlinu; það er það sem skiptir hag bæjarins og bæjar­búa mestu máli í þessum að­stæðum sem við erum í.“

Að­spurð hvort henni þyki gagn­rýni Öddu ó­rétt­mæt um að í svarinu við fyrir­spurn sinni hafi ekki allar upp­lýsingar í málinu komið fram segir Rósa: „Við reyndum bara að svara eftir bestu getu á þeim tíma. Menn verða bara að fá að hafa sína skoðun á því að em­bættis­menn bæjarins séu að vinna undir­búnings­vinnu. Það sem skiptir máli í mínum huga er að það var ekkert frá­gengið fyrr en eftir sam­þykkt bæjar­ráðs.“