Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, segir að öflug vöruþróun og kúltúr Ölgerðarinnar séu stór hluti af velgengni fyrirtækisins. Ölgerðin hefur keypt yfir 30 heildsölur á undanförnu tuttugu árum og fellt starfsemi þeirra inn í reksturinn. Hlutafjárútboð Ölgerðarinnar hefst í fyrramálið og segist Andri bjartsýnn á góðan árangur í útboðinu. Til stendur að selja 30% af fyrirtækinu í útboðinu fyrir um 7,5 milljarða króna sem þýðir að Ölgerðin er metin á 25 milljarða króna. Ekki er um aukið hlutafé að ræða heldur minnka þeir hluthafar sem fyrir eru sinn hlut.

Þetta kemur fram í þættinum Stjórnandinn með Jóni G. á Hringbraut í kvöld en Andri er gestur þáttarins ásamt Ara Fenger, forstjóra 1912 og formanni Viðskiptaráðs. Hér má sjá þáttinn: Stjórnandinn með Jóni G.

Um fyrirtækjamenningu Ölgerðarinnar, kúltúrinn, segir Andri: „Það er hægt að kópera vörurnar okkar en ekki kúltúrinn. Hann byggist á háu orkustigi starfsmanna, framsækni, sigurvilja og jákvæðni. Ég hef alltaf sagt að ánægja starfsmanna skili sér í góðri þjónustu við viðskiptavini og nýjum tækifærum. Við leggjum áherslu á að nýir starfsmenn samsvari sér mjög fljótt við stemninguna innan fyrirtækisins. Kúltúrinn er ekki fljótandi; hann er hannaður. Við viljum hafa þetta háa orkustig; við þurfum á því að halda. Við þurfum að vera fljót að taka ákvarðanir og fljót að grípa tækifærin.“

Vöruþróun Ölgerðarinnar hefur vakið verðskuldaða athygli. Nú er svo komið að 46% af framlegð fyrirtækisins koma frá eigin vörum Ölgerðarinnar – sem er firnasterkt og dreifir áhættunni verulega. „Það tekur enginn þessi vörumerki af okkur. Það er hægt að missa birgjasambönd en ekki okkar eigin vörumerki,“ segir Andri og bætir við að 17% af framlegðinni séu af sérleyfum, eins og Pepsi, Tuborg og Carlsberg – og restin, 37%, er af innflutningi.“

Andri segir að Ölgerðin leggi mikla áherslu á að vaxa og vera áfram markaðsdrifið fyrirtæki. „Við leggjum ofurkapp á vöruþróun og finna út óskir neytenda. „Við höfum vaxið um 12% að jafnaði á síðustu tuttugu árum og EBIDTA Ölgerðarinnar hefur vaxið um 13% að jafnað á sama tíma.“

Fram kemur í þættinum að Ölgerðin hefur yfirtekið um þrjátíu fyrirtæki á síðustu tuttugu árum. „Ég hef sagt að einn af okkar kjarnahæfileikum sé að kaupa fyrirtæki og samþætta þau starfsemi Ölgerðarinnar. Á undanförnum tuttugu árum höfum við keypt um 30 heildsölur,“ segir Andri.

Þátturinn Stjórnandinn með Jóni G. er á dagskrá Hringbrautar öll sunnudagskvöld kl. 21 og 23 og endursýndur alla mánudaga fram að kvöldmat.