Í dag fer fram síðari umræða í borgarstjórn við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir næsta ár. Eins og greint hefur verið frá er gert ráð fyrir fimmtán milljarða halla á rekstri á næsta ári og hafa því verið kynntar ýmsar tillögur til niðurskurðar sem verða teknar fyrir á fundi borgarstjórnar síðar í dag. Í síðustu viku lagði borgarráð fram 92 tillögur um niðurskurð.

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, segir í samtali við Fréttablaðið að henni hugnist ekki tillögur borgarráðs en að flokkur hennar muni samþykkja einhverjar þeirra í dag.

„Þetta var magn umfram gæði. Það var greinilega lögð áhersla á að vera með margar litlar tillögur. Heildarniðurstaðan er kannski ekkert sérstaklega sterk, það er gert ráð fyrir að þær skili um einum milljarði í þennan rekstrarhalla. Það er ekkert rosalega mikið.“

Hildur segir að þótt svo að flokkur hennar samþykki einhverjar tillagnanna þá sé þarna að finna tillögur sem þau voru vonsvikin að sjá og muni ekki samþykkja.

„Við vorum vonsvikin að sjá tillögur um að skera niður í matarkostnaði á leikskólum, í þjónustu við unglinga í félagsmiðstöðvum og í æskulýðs- og tómstundastarfi. Eins er gert ráð fyrir að það verði keyptar færri færanlegar kennslustofur sem þó er mjög mikil þörf á og það á ekki að ráða eins marga inn á leikskólana á sumrin. Það er verið að skera niður á kolröngum stöðum. Það er ekkert verið að ráðast á yfirbygginguna heldur verið að skera niður í þjónustu við fólkið í borginni.“

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram breytingartillögur við fjárhagsáætlun borgarinnar og í tilkynningu um þær segir að verði þær samþykktar verði hægt að spara um sjö milljarða á næsta ári en auk þess eru lagðar fram nokkrar tillögur sem eiga að vera tekjuaukandi.

„Tillögur okkar snúa að því að verja þessa grunnþjónustu sem er búið að leggja til að verði skorið niður í,“ segir Hildur og að í þessu samhengi hafi það verið áhugavert þegar leikskólakennarar bentu á það fyrir helgi að tíunda hver króna sem fer í leikskólastarfið fer í yfirbygginguna en ekki í leikskólastarfið.

„Þetta er nákvæmlega það sem við erum að ávarpa í okkar tillögum,“ en í þeim er til dæmis lagt til að dregið verði úr rekstrargjöldum sem nemur 5,2 milljörðum króna með því að minnka yfirbyggingu. Þyngst vegur þar tillaga um að skera niður launakostnað um fimm prósent á sama tíma og framlínustarfsfólki verður hlíft.

Í tillögum Sjálfstæðisflokksins er einnig lagt til að hagrætt verði í miðlægri stjórnsýslu og borgarstjórnarfulltrúum fækkað aftur í fimmtán.

Jafnframt er lögð til frestun eða lækkun á fjárfestingum sem nemur 1.850 milljónum króna árið 2023 og 4.850 milljónum króna næstu fimm árin. Tillögurnar felast meðal annars í því að fjárfestingar á sviði Þjónustu- og nýsköpunar verði lækkaðar um helming eða um 1.500 milljónir króna og að forgangsraðað verði í þágu starfrænnar umbreytingar í velferðarþjónustu, skólastarfi barna og á umhverfis- og skipulagssviði. Auk þessa verði fjárfestingu í Grófarhúsi og á Hlemmsvæði frestað.

Áttu von á átökum í dag og í kvöld á fundi borgarstjórnar?

„Ég á von á því að fundurinn verði langur og langt fram á kvöld. Hann verður erfiður að því leyti að ég á ekki von á því að minnihluti og meirihluti verði mjög sammála. Á sama tíma er þetta venju samkvæmt ákveðinn hátíðarfundur og fólk mætir spariklætt. Borgarfulltrúar margir flytja sínar stefnuræður og þetta er alltaf ákveðinn hátíðarfundur og skemmtilegur,“ segir Hildur að lokum.