Rafmyntasjóður Íslands hefur hafið útgáfu á rafkrónum. Íslenska rafkrónan byggir á tækni sem gerir fólki kleift að fjárfesta í rafmyntum á hraðari og ódýrari máta en áður.

Hver rafkróna í umferð er tryggð með einni íslenskri krónu og er rafkrónan þá gjaldgeng í rafmyntakauphöllum þar sem hægt er að nálgast allar helstu rafmyntir með mun lægri þóknunum en Íslendingar hafa vanist til þessa.

Börkur I. Jónsson er framkvæmdastjóri félagsins og einn af hluthöfum. Börkur hefur fylgst með heimi rafmynta til fjölda ára og er hugmyndasmiðurinn á bakvið íslensku rafkrónuna ásamt félögum sínum í Rafmyntasjóði Íslands. Hann segir þessa nýjung hér á landi fyrst og fremst hafa þýðingu fyrir þá sem eru á annað borð að sýsla með rafmyndir.

En Börkur segir útgáfu rafkrónunnar ekki bara snúast um að bjóða lægri þóknun heldur sé með þessu verið að hraða ferlinu. „Í dag er algengast að þetta sé gert með millifærslum á milli landa og þær taka jafnan einhverja daga. En útgáfa rafkrónu gerir það að verkum að þetta gerist strax."

Öll umræða um rafmyntir hefur einkennst af því að þessi heimur sé bæði flókinn og varasamur. Að rafmyntageirinn einkennist af svikamyllum og peningaplokki. Börkur segir þá umræðu í sjálfu sér skiljanlega.

„Þetta er svolítið villta vestrið, það verður bara að segjast. Það er mikið um svik og pretti þarna inni. Sérstaklega ef maður skilur ekki kraftana sem eru þarna að baki. Enda er þessi bransi, ein og hann er í dag, fyrst og fremst fyrir einstaklinga sem hafa nægilega tækniþekkingu til að vega og meta það sem er í gangi þarna inni. Það er alla vega mín skoðun. Rafmyntir eru ekki komnar á þann stað, enn sem komið er, að þetta sé fyrir hvern sem er,"

Það eigi þó eftir að gerast með áframhaldandi þróun og tæknibreytingum að mati Barkar.

Nánar verður rætt við Börk Jónsson í Markaðnum á Hringbraut klukkan 19:00 í kvöld.