Gunnar Þór Gíslason, einn eigenda fjárfestingafélagsins Brimgarða, sem er á meðal stærstu einkafjárfestanna í fasteignafélögunum, segir í umfjöllun Markaðarins um virkni hlutabréfamarkaðarins að innlendir fjárfestar hafi yfirleitt mátt vera nokkuð sáttir með veltu hlutabréfa í Kauphöllinni. Hann bendir á að velta með bréf Arion banka í sænsku kauphöllinni sé oft á tíðum ekki mjög merkileg. Lítil velta sé hins vegar enn eitt merkið um lausafjárskort í hagkerfinu og dragi úr réttri verðmyndun á markaði.

„Það er búið að skrúfa fyrir peningaflæðið. Við sjáum þess merki víða og það er spurning hvort það dugi að henda Íbúðalánasjóði út úr innlánsviðskiptum hjá Seðlabankanum eða hvort meira þurfi til eins og til dæmis að gera skuldabréf fasteignafélaganna veðhæf í viðskiptum við Seðlabankann,“ segir Gunnar.

Hann vísar þar til þess að Íbúða­lánasjóði verði frá og með 1. apríl næstkomandi óheimilt að ráðstafa lausu fé sjóðsins til fjárfestinga í bundnum innlánum í Seðlabankanum. Þess í stað þarf Íbúðalánasjóður að leita annarra fjárfestingarkosta, meðal annars í innlánsreikningum í viðskiptabönkunum, sértryggðum skuldabréfum bankanna og ríkisskuldabréfum. Innlán sjóðsins í Seðlabankanum hlaupa á tugum milljarða króna.

„Þessi lausafjárskortur er ekki bara slæmur fyrir verðbréfamarkaðinn heldur einnig fyrir fjárfestingar utan verðbréfamarkaðsins,“ segir Gunnar. Þá sé umhugsunarvert hversu miklir fjármunir renna til lífeyrissjóðanna.

„Það fer nánast allur sparnaður launþega til lífeyrissjóðanna sem er ekki endilega gott fyrir verðmyndun á markaði vegna þess að þeir eru með sambærileg viðhorf til fjárfestinga. Þetta er einsleitur fjárfestahópur. Ég tel að það væri til bóta að skoða losun séreignarsparnaðar þannig að fólk geti falið verðbréfafyrirtækjum að ávaxta séreignarsparnaðinn sinn, eða þannig að hægt verði að vera með sérstaka bundna verðbréfareikninga sem fólk stýrir sjálft.“

Er lítil virkni á markaðinum hindrun þegar kemur að því að laða erlenda fjárfesta að íslenska hlutabréfamarkaðinum?

„Ég er ekki viss um það og ég held að þeir erlendu sjóðir sem hafa verið á markaðinum geti verið sáttir við hvernig þeim gekk að komast inn og út. Undirverðlagður markaður skapar líka ákveðin kauptækifæri sem vekja áhuga erlendra aðila.“

Verður afskráning félaga fýsilegri kostur þegar virkni á markaði er með þeim hætti sem hún er í dag?

„Nei, ég get ekki alveg tekið undir þau sjónarmið. Ég sé ekki hvernig verðmyndun verður betri við að taka félög af markaði. Ef fjárfestar telja að verðið sé of lágt þá verða þeir einfaldlega að halda í bréfin eða kaupa, eða fá félögin til að kynna starfsemi sína með öflugri hætti fyrir fjárfestum. Ég sé það ekki sem merki um það að menn þurfi að taka félög af markaði.“