Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, segir að það sé ekki nýtt að ungt fólk sé vinstrisinnað. Hann svaraði þessu til aðspurður um úrslit nýafstaðinna kosninga til stúdentaráðs Háskóla Íslands, þar sem Röskva, samtök félagshyggjufólks við skólann vann stórsigur. Viðtalið við Hannes Hólmstein birtist í heild sinni í Markaðnum á Hringbraut kl. 21 í kvöld.

„Það er alltaf vinstrisveifla hjá ungu fólki, vegna þess að ungt fólk er róttækt og vill enduskapa heiminn. Það heldur að allt sé mögulegt og áttar sig ekki á speki íhaldsmannanna sem er að þegar er ekki nauðsynlegt að breyta, er nauðsynlegt að breyta ekki.“

Vinstrimenn lömuðust

Hannes segir að eftir fall sósíalismans hafi vinstrisinnaðar stjórnmálahreyfingar átt undir högg að sækja um langt skeið. „Það var undantekning á 10 til 20 árum eftir fall sósíalismans. Þá sátu vinstrimenn algjörlega lamaðir og höfðu ekki nein svör við frjálshyggjunni.“

„Það var ekki bara það að sósíalisminn hafði gengið illa í Rússlandi og Kína og þeir horfið frá sósíalisma í báðum löndum, heldur hafði líka tekist mjög vel með hagstjórn á Vesturlöndum. Fólk eins og Thatcher og Reagan náði mjög góðum árangri og hagstjórnarhugmyndir Milton Friedman voru teknar upp í Mið- og Austur-Evrópu. Þannig að þetta var alveg sérstakur tíðarandi.“

Var samferða tíðarandanum

Prófessorinn heldur því fram að téður tíðarandi hafi einmitt haft mikið að segja um hversu aðsópsmikill hann hefur verið í þjóðmálaumræðu á undanliðnum áratugum: „Ástæðan til þess að ég er stundum talinn áhrifamikill á Íslandi, er held ég ekki að ég hafi verið svona snjall. Ástæðan er sú að ég var, kannski fyrir tilviljun, samferða tíðarandanum. Það var á þessa leið, á seinni hluta níunda áratugarins og allan tíunda áratuginn og raunar fram að fjármálakreppunni 2008.“

Tíðarandinn sé hins vegar breyttur í dag. „Menn hafa gleymt áföllunum og ókostunum við sósíalismann. Að vísu dettur engum í hug lengur, að taka upp það sem var stefnuskrá sósíalista alla 19. og 20.öldina sem var að ríkið eignaðist framleiðslutækin og ræki þau. Það er ekki á dagskrá.“

Sósíalisminn upprættur

„En tilfinningin sem býr að baki sósíalismanum hefur ekki verið upprætt. Sem er tilfinningin um að einn geti ekki staðið neitt af sér, að þú verðir að hjúfra þig að einhverjum hóp og skríða inn í eitthvað skjól. Vera hluti af einhverri heild. Þú átt að vera hópmenni en ekki einstaklingur.“

„Við sjáum það gerast í þessum afturköllunarfári og innan þessara merkimiðastjórnmála. Fólk er að reyna að afneita sjálfum sér sem einstaklingum og reyna að berjast gegn þeim þáttum í vestrænni menningu sem tengjast einstaklingshyggju, frjálsu vali og þá um leið ábyrgðinni sem þú berð á sjálfum þér. Ég myndi kannski segja að það sé mest áberandi í þessari nýju menningu. Það er að neita því að menn beri ábyrgð á sjálfum sér og standi og falli með gerðum sínum. Þeir eiga að græða þegar þeir eru hagsýnir og tapa þegar þeir eru óhagsýnir.“

Ekki missa af nýjasta þætti Markaðarins sem verður sýndur á Hringbraut í kvöld klukkan 21:00.