Hópsnes ehf. sem er eigandi Hringrásar ehf. og HP Gáma ehf. og TFII slhf. sem er fagfjárfestasjóður í umsjón Íslenskra Verðbréfa hafa komist að samkomulagi um að TFII eignist helmingshlut í Hringrás og HP. Mun sjóðurinn leggja sameinuðu félagi til nýtt hlutafé sem ætlunin er að nota til frekari uppbyggingar og framsóknar þess. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslenskum verðbréfum.

„Hópsnes, sem áður átti HP Gáma, festi kaup á Hringrás fyrir rúmlega ári síðan og hefur reksturinn gengið vonum framar, enda gott félag með langa sögu sem býr yfir miklum mannauði og þekkingu. Félögin voru svo sameinuð frá og með 1. janúar 2021. Við sjáum mikil tækifæri felast í því að fá öflugan fagfjárfestasjóð að félaginu með okkur og horfum björtum augum til framtíðar og þeirra verkefna sem framundan eru í endurvinnslu á málmum, hjólbörðum og öðrum úrgangi sem til fellur.“ segir Alexander G. Edvardsson forstjóri Hringrásar og einn eigenda Hópsness í tilkynningu.

„Við erum hæstánægð með að TFII sé að koma í hluthafahóp Hringrásar og HP gáma og hlökkum mikið til samstarfsins við það öfluga teymi sérfræðinga sem er hjá þessum tveimur félögum. TFII var stofnaður árið 2017 og lýkur sínu fjárfestingatímabili með kaupunum á helmingshlut í Hringrás og HP gámum. Eignasafn sjóðsins byggist upp á fjárfestingum í innviðum og þjónustu við þá ásamt útflutningsfyrirtækjum með mikil vaxtartækifæri. TFII hefur tekist að auka virði sinni eigna umtalsvert þrátt fyrir að 5 ár séu ennþá eftir af líftíma sjóðsins. Við horfum björtum augum til framtíðar þeirra fyrirtækja sem sjóðurinn hefur fjárfest í og teljum Hringrás og HP gáma vera spennandi og mikilvæga viðbót. Þau fyrirtæki sem sjóðurinn hefur fjárfest í hafa mikil tækifæri til vaxtar og frekari uppbyggingar á næstu árum, hluthöfum sem og samfélaginu öllu til heilla.“ segir Hrafn Árnason forstöðumaður Sérhæfðra fjárfestinga hjá Íslenskum Verðbréfum.

Ekki eru fyrirhugaðar neinar breytingar á stjórnun eða starfsmannamálum félaganna tengt þessum viðskiptum og mun Alexander gegna starfi forstjóra sameinaðs félags ásamt framkvæmdastjóra HP gáma, Jörgen Þór Þráinssyni.

Fyrirtækjaráðgjöf Íslenskra Verðbréfa stýrir söluferlinu en samkomulag um kaupin er háð fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.