Bandaríski rafbílaframleiðandinn Tesla opnar starfsstöð við Krókháls í dag. Brátt munu landsmenn geta prufukeyrt glænýja Tesla rafmagnsbíla og fjárfest í grænni framtíð. Eigendur rafmagnsbíla frá Tesla geta nú loks fengið almennilega þjónstu fyrir bíla sína.

Þá stendur til að setja upp þrár öfl­ugar hrað­hleðslu­stöðv­ar á fjórum stöðum á land­inu, í Reykja­vík, á Kirkju­bæj­ar­klaustri, Egils­stöðum og við Stað­ar­skála í náinni framtíð. Slíkar stöðvar hlaða raf­bíla á um hálf­tíma.

Tesla Model 3.
Gísli Gíslason

Athafnamaðurinn og geimfarinn Gísli Gíslason flutti inn Teslu-bíla fyrir nokkrum árum í gegnum fyrirtæki sitt Even. Þá hafi rafbílaframleiðandinn sagt að það væri einfaldlega ekki markaður fyrir Tesla á Íslandi og ákvað Gísli þá að flytja inn bílana sjálfur.

Salan á bílunum gekk vel og voru þónokkrir bílar pantaðir. Fyrirtækið varð þó gjaldþrota árið 2016 eftir að 50 bílar skiluðu sér aldrei til Evrópu og Íslands til afhendingar á réttum tíma. Fyrirtækið hafi ekki haft bolmagn til að lifa af slíkar tafir.

Gísli birti mynd rétt í þessu frá opnun Tesla á Íslandi í dag en hann er þar staddur ásamt starfsmönnum Tesla til að fagna opnuninni. Þá hefur Tesla ákveðið að nú sé markaður fyrir rafmagnsbílana á Íslandi.

Sala rafbíla hefur auk­ist um 52 prósent á fyrri helm­ingi árs­ins hér­lend­is sam­an­borið við fyrri helm­ing síðasta árs. Íslend­ing­ar eru í öðru sæti meðal Evr­ópuþjóða þegar litið er til hlut­deild­ar seldra raf­bíla af seld­um nýj­um bíl­um í hverju landi fyr­ir sig. Norðmenn sitja í efsta sæt­inu.

Athafnamaðurinn Elon Musk, stofnandi rafbílaframleiðandans Tesla, staðfesti opnunina á Twitter fyrir nokkru. Hann svaraði tísti Hjartar Brynjarssonar sem spurði hvenær útibú Tesla hér á landi myndi opna.